Verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 17:05:21 (7224)

2000-05-09 17:05:21# 125. lþ. 110.23 fundur 420. mál: #A verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir# (menntunarkröfur, tryggingar, afleiðusamningar o.fl.) frv. 99/2000, Frsm. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 125. lþ.

[17:05]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hæstv. ráðherra ákaflega lítillát ef hún telur gott og blessað að meiri hluti efh.- og viðskn. vísi frá veigamiklum þáttum sem ráðherrann hefur lagt áherslu á að fá lögfest. Það er auðvitað það sem meiri hlutinn er að gera, hann er að hafna og vísa frá þinginu ákveðnum þáttum sem varða meðferð trúnaðarupplýsinga og ákvæði í löggjöf um innherjaviðskipti.

Við erum aftur á móti að styðja ráðherrann í því að fá lögfest þau atriði sem ég hef ekki skilið öðruvísi en svo að ráðherrann leggi áherslu á. Þetta heitir nú bara að snúa hlutunum á hvolf ef ráðherrann telur að það sé fullnægjandi að málum sé vísað frá sem ráðherrann sjálfur leggur áherslu á að fá afgreidd á hv. Alþingi.

Síðan verð ég að segja það, herra forseti, að það dugir ekki að tala um Fjármálaeftirlitið sem sjálfstæða stofnun eins og mér finnst ráðherrann ítrekað gera þegar hún er spurð spurninga sem snerta verðbréfaviðskipti og Fjármálaeftirlitið. Vissulega veit ég að þetta er sjálfstæð stofnun en ráðherrann hlýtur þó að fylgjast með þeim tillögum sem Fjármálaeftirlitið setur eins og í þeim brotum á verklagsreglum hjá sex fyrirtækjum sem Fjármálaeftirlitið sagði að væru viðskipti sem ættu að ganga til baka. Ráðherrann hlýtur þá að hafa fylgst með því hvernig hefur verið framfylgt þeim tilmælum, beiðnum eða óskum eða hvað það á að kalla þetta frá Fjármálaeftirlitinu. Ef það eru yfirmenn fyrirtækjanna sem eiga að ganga eftir því að þessi viðskipti séu látin ganga til baka þá spyr ég: Hefur það verið gert?

Mér finnst alveg lágmark að hæstv. viðskrh. viti um það hvort svo er eða ekki. Hún þarf ekki að svara því nema með einu orði að þetta hafi verið látið ganga til baka eða að verið sé að kanna þetta eða hvernig staðan sé í þessum málum. Ég óska eftir svari við því.

Síðan spyr ég hæstv. ráðherra um samkeppnislöggjöfina sem er enn til meðferðar hjá efh.- og viðskn.