Verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 17:07:42 (7225)

2000-05-09 17:07:42# 125. lþ. 110.23 fundur 420. mál: #A verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir# (menntunarkröfur, tryggingar, afleiðusamningar o.fl.) frv. 99/2000, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 125. lþ.

[17:07]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég lít mjög alvarlegum augum þau brot sem hafa átt sér stað á verklagsreglum og það hef ég látið koma fram áður í þinginu.

Vegna þeirrar spurningar hv. þm. hvernig brugðist verði við gagnvart þeim fyrirtækjum þar sem þessi brot hafa verið framin þá er reyndar ekki komin niðurstaða í það mál. Ég get því ekki á þessari stundu svarað því nákvæmlega hver viðbrögð viðkomandi stjórna verða. En það er rétt að niðurstaða Fjármálaeftirlitsins var sú að þessi viðskipti skyldu ganga til baka ef kostur væri.

Það sem átt er við er m.a. það að þar sem um viðskipti hefur verið að ræða sem heimiluð hafa verið af yfirmönnum þá er ekki hægt annað en að skrifa þau á þeirra ábyrgð en ekki á ábyrgð þeirra starfsmanna sem hafa átt viðskipti í þeirri trú að þau stæðust verklagsreglur. Í sumum tilvikum liggur ábyrgðin því hjá yfirmönnum en í öðrum tilfellum liggur hún hjá viðkomandi starfsmönnum, sem hafa, ég ætla ekki að segja stundað ólögleg viðskipti, en hafa átt viðskipti sem standast ekki þær reglur sem settar hafa verið af stjórnum viðkomandi fyrirtækja.

Um samkeppnislög er það að segja, eins og hv. þm. veit, að þau eru til meðferðar í efh.- og viðskn. Ég veit ekki betur en þau verði afgreidd frá nefndinni og verða vonandi þá að lögum áður en við ljúkum störfum í vor.