Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 18:13:36 (7230)

2000-05-09 18:13:36# 125. lþ. 110.24 fundur 547. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (hlutabréf, lífeyrisiðgjöld o.fl.) frv. 86/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 125. lþ.

[18:13]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að spyrja hv. þm. Ögmund Jónasson um frádrátt vegna hlutabréfakaupa, sem hann kallar brask, þar sem hann er mér miklu fremri í því og starfar við þetta alla daga sem stjórnarmaður í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.

Ég ætla að spyrja hv. þm. um umsögn ASÍ þar sem segir að ASÍ sé hlynnt þessari breytingu, þ.e. að bæði framlög einstaklinga og atvinnurekenda til öflunar lífeyrisréttar teljist til skattskyldra tekna þess sem lífeyrisréttinn fær. Hvernig hugnast hv. þm. sú umsögn?

Og svo ætla ég að spyrja hv. þm., af því að hann ræddi um kauprétt, hvað hann ráðleggi ungum tæknifyrirtækjum sem hafa lítið eigið fé og geta ekki borgað mikil laun en gætu fengið mjög hæfa starfsmenn gegn því að lofa þeim kauprétti ef vel skyldi ganga. Eins og hv. þm. veit náttúrlega er kauprétturinn einskis virði ef illa gengur. Hvað mundi hann ráðleggja ungum tæknifyrirtækjum í viðleitni þeirra til að fá vel menntað starfsfólk til starfa í stað þess að bjóða því kauprétt?