Loftferðir

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 20:03:56 (7238)

2000-05-09 20:03:56# 125. lþ. 110.22 fundur 250. mál: #A loftferðir# (gjaldtökuheimildir o.fl.) frv. 74/2000, Frsm. minni hluta KLM
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 125. lþ.

[20:03]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir minnihlutaáliti samgn. en auk mín standa að álitinu hv. þm. Lúðvík Bergvinsson og Jón Bjarnason. Einnig brtt. á þskj. 1258 sem sömu menn flytja við 2. gr. frv. sem fjallar um að taka upp hið svonefnda leiðarflugsgjald.

Við erum hlynntir ákveðnum breytingum sem lagt er til að gera með þessu frv., eins og með þyngd véla í 1. og 3. gr., þar sem komið er til móts við óskir þeirra sem reka minni flugvélar í innanlandsflugi, eða sem sagt lækka þá skatta sem þeir eiga að greiða.

Hins vegar erum við afar ósáttir við að tekið verði upp leiðarflugsgjald og í nál. okkar, sem hér hefur væntanlega eða á eftir að útbýta, segir svo:

Með frv. þessu eru ýmsar gjaldtökuheimildir loftferðalaga færðar úr gjaldskrám í lög. Einnig er gert ráð fyrir því nýmæli að lagður verði skattur á innanlandsflug með upptöku sérstaks leiðarflugsgjalds til fjármögnunar flugleiðsöguþjónustu við flugrekendur.

Rekstur innanlandsflugs er ekki með því móti að það geti staðið undir auknum sköttum, enda eru umsagnir þessara aðila allar á einn veg, nýja skattinum er mótmælt harðlega.

Flugfélag Íslands, Íslandsflug og Samtök ferðaþjónustunnar mótmæla öll eindregið upptöku nýs skatts á flugrekendur í innanlandsflugi. Flugfélag Íslands segir m.a. í umsögn sinni:

,,Samkvæmt formúlu sem gilda á um þessi nýju gjöld þýðir það að greiða þarf t.d. 10,65 kr. fyrir hvern floginn kílómetra Fokker 50 flugvélar í innanlandsflugi. Í athugasemdum með frv. kemur fram að þessu nýja gjaldi sé ætlað að skila Flugmálastjórn um 30 millj. kr. viðbótartekjum í ár. Aðdragandi þessarar nýju gjaldtöku af innanlandsfluginu kom fram á fundi sem samgönguráðuneytið hélt 19. ágúst 1999 með fulltrúum sex íslenskra flugrekenda. Á þeim fundi kom m.a. fram að hér væri ,,aðeins um fyrsta stig slíkrar innheimtu`` að ræða. Á þeim fundi mótmæltu flugrekendur harðlega slíkum viðbótarálögum og vitnuðu í því sambandi til þeirrar staðreyndar að íslenskt innanlandsflug hefur um árabil verið rekið með töluverðu tapi.``

Íslandsflug mótmælir upptöku leiðarflugsgjalds, og segir m.a. í umsögn sinni: ,,Rekstur innanlandsflugs hefur verið erfiður og þolir ekki frekari álögur.``

Samtök ferðaþjónustunnar segja m.a. í umsögn sinni:

,,Samtökin mótmæla harðlega tillögu um að lögfesta álagningu flugleiðsögugjalds í innanlandsflugi sem í mörg ár hefur verið rekið með tapi eins og menn vita.``

Fram kemur í umsögnum þessara aðila að skattheimta sem þessi mun auka enn frekar erfiðleika þeirra í innanlandsflugi. Gjaldið á að fjármagna flugleiðsöguþjónustu við flugrekendur og greiða allan kostnað Flugmálastjórnar af innanlandsflugi, en hann er nú áætlaður allt að 180 millj. kr. á ári.

Minni hlutinn leggst alfarið gegn þessari auknu skattheimtu á innanlandsflug og flytur brtt. um að hætt verði við hana. Mun minni hlutinn greiða atkvæði með einstökum greinum frv. sem eru til bóta en ekki greiða atkvæði með frv. í heild af fyrrgreindum ástæðum sem ég hef hér rakið.``

Herra forseti. Þetta er í raun og veru allt sem segja þarf um þetta atriði sem hér er fjallað um. Auk þess er í brtt. meiri hlutans kveðið á um vopnaleitargjaldið á flugvöllum úti á landi sem mun gefa um 1,2 millj. kr. tekjur til Flugmálastjórnar. En sú breyting sem gerð er við 1. gr. frv. af meiri hluta samgn. og ég lýsti áðan yfir að er til þess að bæta þeim sem reka minni flugvélar að lækka þau gjöld á það þá er það skref í rétta átt og því erum við samþykk.

Í umsögnum annarra aðila kemur ýmislegt fram í þessu efni sem gaman hefði verið að ræða enn frekar ef betri tími hefði verið til. En eins og ég sagði áðan, herra forseti, ætla ég við þessa umræðu ekkert að orðlengja þetta miklu meira, það hefur sennilega engan tilgang, því miður. Hæstv. ríkisstjórn hefur ákveðið að taka upp leiðarflugsgjaldið sem mun íþyngja flugrekstraraðilum mjög mikið, eins og hér hefur komið fram og ég hef lesið í umsögnum þessara aðila. En ég bendi á að við þá erfiðleika sem eru í innanlandsflugi þar sem verið er að hætta flugi til ýmissa staða úti á landi frá Reykjavík og frá Akureyri til annarra staða. Vegna þessa ástands held ég að ekki sé ástæða til að taka þetta upp.

Hins vegar ætla ég alveg hiklaust að fagna því sem komið hefur fram að hæstv. ríkisstjórn hefur tekið um það ákvörðun að styrkja flug innan lands til ýmissa staða og bjóða það út og þá vonandi með sjúkrafluginu sem einnig er rætt um. Samt sem áður tel ég það afar hæpnar aðgerðir að taka upp leiðarflugsgjald á þessum tíma þegar við erum í þessari óvissu. Reyndar tel ég að þetta ætti að fara út og hvet hér aðra til að ljá máls á því að við þessa skattheimtu verði hætt á þessu stigi. Áætlað er, eins og ég sagði áðan, að hún gefi um 30 milljónir í tekjur á þessu ári og hugsanlega tvöfaldar tekjur eða á bilinu 50--60 milljónir allt árið 2001. En inni í þessu er líka því miður möguleiki að halda áfram og fara í þær 180 milljónir sem þetta kostar í dag. Það kom fram í umræðum aðila sem komu á fund hv. samgn. að þetta væri aðeins fyrsta skref, að þeir ættu að greiða fyrir þessa þjónustu sem hana nota. Við erum því andvíg þeirri skattheimta sem þarna er boðuð og munum greiða atkvæði gegn henni á hv. þingi.