Álagning gjalda á vörur

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 20:22:09 (7241)

2000-05-09 20:22:09# 125. lþ. 110.25 fundur 500. mál: #A álagning gjalda á vörur# (breyting ýmissa gjalda) frv. 104/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 125. lþ.

[20:22]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breyting á lögum um álagningu gjalda á vörur, en í frv. eru lagðar til breytingar á ákvæðum ýmissa laga er kveða á um álagningu gjalda á vörur sem fluttar eru hingað til lands eða eru framleiddar hér á landi. Hv. formaður efh.- og viðskn. hefur farið nokkrum orðum um helstu breytingarnar sem hér er um að ræða. En í umsögn um frv. sem efh.- og viðskn. barst frá fjmrn. og fylgdi reyndar þessu stjfrv. er því haldið fram að einu áhrifin sem frv. hafi á gjaldahlið ríkissjóðs séu af endurgreiðslum skatta á búnaði björgunarsveita.

Ég tel að áhrifin frv. geti verið önnur og meiri og nefni þar að á meðal þeirra breytinga sem verið er að leggja til að gerðar verði sé að fella niður áfengisgjald í fríhöfnum og á frísvæðum. Hvað er hér um að ræða háar upphæðir?

Úr fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli, Leifsstöð, er um að ræða á milli 170 og 200 millj. kr. á hverju ári sem ríkissjóður fær vegna álagningar áfengisgjalds bara þar. Síðan kemur til áfengisgjald annars staðar frá, Akureyri, Reykjavík og af frísvæðum væntanlega. Þar er sennilega um óverulegar upphæðir að ræða. Stærsta upphæðin er frá Keflavíkurflugvelli.

Ég er mjög andvígur því að þetta gjald verði fellt niður, ekki síst í ljósi fyrirhugaðra breytinga á Leifsstöð. Við vorum reyndar upplýst um það í efh.- og viðskn. að þetta frv. hefði verið undirbúið áður en fram kom sá vilji hæstv. utanrrh. að einkavæða flugstöðina með manni og mús. En eins og mönnum er kunnugt þá liggur fyrir Alþingi frv. þess efnis. Mér finnst sannast sagna, herra forseti, skjóta skökku við að ráðast í það á þessari stundu, á meðan allt er óljóst um hver verður framtíð Leifsstöðvar, að leggja til lagabreytingu sem fellir niður veigamikinn tekjustofn fyrir ríkið af áfengissölu á Keflavíkurflugvelli.

Nú er hægt að segja sem svo að unnt sé að ná þessum tekjum öðruvísi inn en í gegnum áfengisgjaldið. Það mun hafa verið svo að áður en það var lagt á hafi greiðslur sem þessari upphæð nemur runnið í ríkissjóð. Það er alveg rétt. Það er hægt að millifæra þarna á milli og þess vegna fela nýjum eigendum, ef farið verður út í að selja flugstöðina sem hæstv. utanrrh. segir að vel komi til greina, eða gera þeim að inna þessar greiðslur af hendi einhvern veginn öðruvísi.

En ég á afskaplega erfitt með að skilja, herra forseti, að hæstv. fjmrh. skuli á þessari stundu, nú þegar við stöndum frammi fyrir því að taka ákvörðun um framtíð Leifsstöðvar, koma hér með frv. sem sérstaklega ívilnar þessu væntanlega hlutafélagi um 170 millj. kr. Vegna þessara orða minna um að hægt sé að ná þessum tekjum örðuvísi inn, vil ég minna á sagnfræðina í fríhöfnum landsins. Sú var tíðin hér forðum að Ferðaskrifstofa ríkisins hafði aðstöðu og annaðist sölu ýmiss varnings í Keflavík, í fríhöfn. Seldur var margvíslegur varningur og af honum rann dágóð summa í ríkissjóð. Og hvernig var henni ráðstafað? Henni var ráðstafað til landkynningar, til ferðakynninga og til landkynningar.

Þegar þessu var breytt og nýir rekstraraðilar, Íslenskur markaður og aðrir, komu til sögunnar í Keflavík var farið út í annars konar skattheimtu. Innheimtur var sérstakur skattur af hverjum ferðamanni sem kom til landsins. Síðan var slakað á þessu og ekki innheimt gjald af öðrum en þeim sem komu hingað, þ.e. ekki þeim sem fóru á milli flugvéla eða millilentu hér. Síðan kom að því að lokum að þetta gjald gufaði upp. Þá fóru menn að óskapast yfir því að ekki væru peningar til landkynningar, til kynningar fyrir ferðaþjónustuna.

Nú er ég ekki að leggja til afturhvarf til þessara tíma. Að sjálfsögðu er ég ekki að gera það. Það er liðin tíð. En ég er bara að minna á að svo kann að fara fyrir ásetningi nú um að ná þessum fjármunum inn með öðrum hætti og góðum áformum, eins og fór fyrir þessum tekjustofni sem ríkið hafði og ferðaþjónustan og var varið til landkynningar.

Ég vil því heyra sjónarmið hæstv. fjmrh. í þessu efni og auglýsi eftir afstöðu hans og hvernig á þessu standi nú á þessari stundu þegar Alþingi stendur frammi fyrir því að taka afstöðu til þess hvort gera eigi Leifsstöð að hlutafélagi með það fyrir augum að selja hana. Það hefur að sjálfsögðu ekki verið ákveðið enn að ganga alla þá leið en hæstv. utanrrh. sem stendur fyrir frv., flytur frv. um hlutafélagavæðingu Leifsstöðvar, segir að það komi vel til greina.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta nánar. En ég vil helst ekki ljúka máli mínu fyrr en ég hef vissu fyrir því að hæstv. fjmrh. veiti hér einhver svör. Ég er að andmæla því að nú, rétt áður en tekin er ákvörðun um hvort gera eigi Leifsstöð að hlutafélagi, leggi hæstv. fjmrh. að þinginu að samþykkja frv. sem afnemur áfengisgjald, 170 millj. kr. tekjustofn á ári. Mér finnst þetta ekki ganga upp og þess vegna hef ég ásamt þingmönnum í minni hluta efh.- og viðskn. lagt fram brtt. við frv. sem gerir ráð fyrir að horfið verði frá þessari ráðagjörð.