Álagning gjalda á vörur

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 20:35:00 (7244)

2000-05-09 20:35:00# 125. lþ. 110.25 fundur 500. mál: #A álagning gjalda á vörur# (breyting ýmissa gjalda) frv. 104/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 125. lþ.

[20:35]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég met það að sjálfsögðu mikils að hv. þm. skuli vilja halda í lögum sérstökum heimildum fyrir fjmrh. til þess að leggja á eða fella niður ákveðin gjöld. En slíkar heimildir standast ekki lengur. Þess vegna er, í þessum bandormi sem tekur á breytingum á mörgum lögum og reyndar víðar í lögum sem við höfum verið að vinna að sameiginlega í þinginu og í ríkisstjórn, verið að afnema allar slíkar heimildir svo þær hafi skýra og örugga lagastoð og séu framvegis á valdi þingsins en ekki framkvæmdarvaldsins.

Það er auðvitað í samræmi við þær breytingar sem við beittum okkur fyrir hér mörg hver þegar stjórnarskránni var breytt árið 1995 á þann veg að engan skatt megi á leggja eða af leggja nema með lögum. Þess vegna getum við ekki leyft okkur það framvegis að veita ráðherra opnar heimildir í þeim efnum, hvorki að því er varðar áfengisgjald né aðra skatta. Þannig er þetta mál. Þess vegna þarf að kveða skýrt á um hvert þetta gjald eigi að vera eða þá, eins og lagt er til í frv., kveða á um að þetta verði fellt niður við sölu til tollfrjálsra verslana. Ég tel að það sé eðlilegt og rökrétt.

Ef þingmaðurinn vill halda sig við skoðun sína þá á hann ekki að leggja til að frumvarpsgreinin falli brott og fjmrh. hafi áfram þessa heimild, heldur á hann að leggja til einhverja ákveðna tölu, upphæð áfengisgjalds á þessum vettvangi, inn á tollfrjálst svæði. Það væri upphæð sem þingið hefði ákveðið og yrði því ekki breytt aftur nema með lögum. Málið snýst um að lögfesta sjálfan skattinn, annað hvort prósentu eða upphæð.