Álagning gjalda á vörur

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 20:36:55 (7245)

2000-05-09 20:36:55# 125. lþ. 110.25 fundur 500. mál: #A álagning gjalda á vörur# (breyting ýmissa gjalda) frv. 104/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 125. lþ.

[20:36]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Málið snýst náttúrlega fyrst og fremst um það að tryggja hag íslenskra skattgreiðenda og eigenda flugstöðvarinnar, að tryggja að þeir fái notið arðsins sem þar skapast.

Ég er að sjálfsögðu til viðræðu um hvernig það verði gert. Það er alveg rétt sem fram kemur hjá hæstv. fjmrh. að vegna stjórnarskrárbreytinga, ákvæða í stjórnarskrá Íslands, hefur verið unnið að því, og ég hef stutt það, að nema brott úr lögum heimildarákvæði og festa í lög.

En það sem fyrir mér vakir, herra forseti, er að tryggja hag skattborgarans. Mér finnst óeðlilegt að afnema á þessari stundu 170 millj. kr. tekjustofn fyrir ríkið í þeirri óvissu sem nú ríkir um framtíð Leifsstöðvar.

Varðandi fullyrðingu hæstv. fjmrh. og ásetning sem ég efast ekkert um að er einlægur af hans hálfu, að við getum tryggt með öðrum hætti þessar tekjur til ríkissjóðs, þá hef ég um það ákveðnar efasemdir. Ég bendi á sögu þessara mála, reyndar af öðrum tekjustofni sem rann til landkynningar og ferðaiðnaðar.

Ég er reyndar sannfærður um að í framtíðinni muni fríhafnir ekki njóta skattalegra sérréttinda heldur muni þær hafa verslun og viðskipti vegna þess að þær eru fríhafnir og hafa nauðuga kaupendur á sínum snærum. Þetta verður þess valdandi að fólk verslar í fríhöfnum í framtíðinni. Þess vegna á hið sama að gilda um þær og aðra sem höndla með áfengi eða aðrar vörur. Það er tímaskekkja að veita Fríhöfninni sérréttindi, svo ekki sé minnst á að það skuli gert núna nokkrum klukkustundum áður en taka á fyrir mjög umdeilt frv. hæstv. utanrrh. um að hlutafélagavæða og hugsanlega selja fríhöfnina í Keflavík, eina stærstu tekjulind íslenska ríkisins.