Setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 20:44:20 (7249)

2000-05-09 20:44:20# 125. lþ. 110.38 fundur 24. mál: #A setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði# þál. 20/125, MF
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 125. lþ.

[20:44]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Sú till. til þál. sem hér er til umræðu er hluti af þeim málum sem þingflokkur Samfylkingarinnar lagði fram í haust. Þar var um ýmsar aðgerðir að ræða sem snerta fjármagnsmarkaðinn. Þar voru frv. til laga um Fjármálaeftirlit og Samkeppnisstofnun og síðan skýrslubeiðni þingflokksins um eigna- og stjórnatengsl í íslensku atvinnulífi auk þessarar tillögu sem hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir er 1. flm. að.

[20:45]

Eins og fram kom í framsögu hv. þm. Vilhjálms Egilssonar, formanns efh.- og viðskn., gerði nefndin ákveðnar breytingar á tillögunni sem við höfum fyrir okkar leyti fallist á vegna þess að það sem við teljum vera hvað mikilvægast er að fyrirtæki og stofnanir á fjármálamarkaði setji sér sérstakar siðareglur í viðskiptum. Hins vegar liggur ekki fyrir nein athugun á því hvort stofnanir hafi sett sér slíkar reglur í dag og nefndin leggur til að í þá skoðun verði farið og ráðherra skili síðan Alþingi skýrslu um niðurstöðu könnunarinnar í upphafi haustþings og í framhaldi af því munum við í þingflokki Samfylkingarinnar síðan meta hvort við teljum ástæðu til að endurflytja eftirfarandi hluta þessarar tillögu, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela viðskiptaráðherra að sjá um að allar stofnanir og fyrirtæki á fjármálamarkaðinum setji sér sérstakar siðareglur í viðskiptum.``

Komið hefur í ljós á undanförnum vikum og mánuðum og nú síðast bara á síðustu dögum, þar sem Fjármálaeftirlitið hefur veitt tiltal ýmsum forráðamönnum fyrirtækja og þar á meðal ríkisstofnana sem starfa á fjármagnsmarkaðnum, að þörfin fyrir slíkar siðareglur er mjög rík. Hins vegar föllumst við á þá leið að farið verði í þessa könnun fyrst.