Verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 22:25:05 (7272)

2000-05-09 22:25:05# 125. lþ. 111.7 fundur 420. mál: #A verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir# (menntunarkröfur, tryggingar, afleiðusamningar o.fl.) frv. 99/2000, Frsm. minni hluta JóhS
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 125. lþ.

[22:25]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Þetta mál er komið til 3. umr. Minni hlutinn gerði tilraun til þess við 2. umr. og atkvæðagreiðslu um frv. að taka á þeim vandamálum sem upp hafa komið á verðbréfamarkaðnum og snerta aðallega meðferð á trúnaðarupplýsingum og innherjaviðskipti.

Því miður fór það svo við þessa atkvæðagreiðslu að meiri hlutinn felldi allar tillögur okkar þannig að eftir stendur mjög máttlaust frv. sem sýnir raunverulega uppgjöf meiri hlutans við því að taka á málinu. Meiri hlutinn hefur vísað þessum málum aftur heim til föðurhúsanna til hæstv. viðskrh. og falið viðskrh. að koma með betur búið frv. hingað til þings í haust. Það verður auðvitað að treysta því úr því sem komið er að svo verði og eftir því verður auðvitað fast gengið í haust að ráðherra komi fram með þetta frv. sem meiri hlutinn telur ekki tímabært að taka á núna þrátt fyrir öll þau vandamál sem hafa komið upp á verðbréfamarkaðnum. Flestar af þeim tillögum sem minni hlutinn kom fram með við 2. umr. hafa verið studdar af Fjármálaeftirliti og Verðbréfaþingi sem hafa lagt ríka áherslu á að þessar tillögur minni hlutans nái fram að ganga.

En því miður, herra forseti, er niðurstaðan sú við lokaafgreiðslu málsins að við stöndum uppi með mjög máttlaust frv. og ljóst að hæstv. viðskrh. verður að vinda sér strax í það verk að taka á því máli sem meiri hlutinn vísar nú til föðurhúsanna til hæstv. ráðherra. Vonandi kemur hæstv. ráðherra með betur búið frv. til þings næsta haust.