Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 23:02:17 (7284)

2000-05-09 23:02:17# 125. lþ. 111.16 fundur 553. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárafurðir) frv. 88/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 125. lþ.

[23:02]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að gæðastýring sé alls staðar af hinu góða. En hún þarf að koma frá þeim sem á að gæðastýra. Frumkvæðið þarf að koma þaðan. Öll fyrirtæki í atvinnurekstri stefna að gæðastýringu og gæðavottun vegna þess að þau sjá sér hag í því, vegna þess að markaðurinn krefst þess. Hvar er markaðurinn hjá bændum? Hvergi. Hver krefst umbóta? Það eru einhverjir skriffinnar ofan frá, stjórnmálamenn sem ætla að segja bændum að nú sé skynsamlegt að taka upp gæðastýringu. Þeir skilja það ekki sjálfir. Það er ekkert sem neyðir þá til þess. Ég er að gagnrýna það. Það vantar markaðsöflin sem segja við bændur: Ef þú tekur ekki upp gæðastýringu þá verðfellur varan þín. Það gerist ekki heldur er þessu stýrt ofan frá og menn ætla að taka af einum bóndanum beingreiðslu og setja til annars ef hann er hlýðinn og uppfyllir skilyrði um gæðastýringu sem stýrt er ofan frá. Þetta er búið að reyna við landbúnaðinn núna í áratugi. Menn hafa reynt að stýra honum ofan frá og árangurinn sést ekki.