Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 23:32:00 (7290)

2000-05-09 23:32:00# 125. lþ. 111.16 fundur 553. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárafurðir) frv. 88/2000, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 125. lþ.

[23:32]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst fullkomlega eðlilegt að hæstv. landbrh. skuli boða okkur trú á sinn eigin gerning, þ.e. þennan samning sem hann ber að sínu leyti ábyrgð á og hefur gert við Bændasamtökin. Auðvitað vona ég að hæstv. ráðherra verði að trú sinni og að þessi samningur reynist vel, en ég hef mínar áhyggjur og efasemdir því miður. En ég hefði glaðst yfir því ef þarna hefði verið tekið myndarlegar á ákveðnum hlutum.

Varðandi mikilvægi innanlandsmarkaðarins hefur það náttúrlega lengi blasað við að í rauninni væri það hið eina sem innlend framleiðsla af þessu tagi hefði til þess að treysta á þangað til að þau gleðitíðindi yrðu að mönnum opnuðust einhverjir markaðir sem gæfu verð og stöðugleika til framleiðslu þannig að á því væri eitthvað byggjandi en það hefur ekki verið. Lengst af hefur það verið þegar til kastanna kemur Færeyjamarkaðurinn sem hefur reynst okkur best.

Ég hef hins vegar, herra forseti, miklar áhyggjur af því sem hæstv. ráðherra nefndi og það er staða framleiðslu- og afurðastöðva á markaði innan lands. Ég held að þar hafi líka gerst hlutir sem við verðum að horfast í augu við að geta verið og eru að mörgu leyti slíkri framleiðslu mjög erfiðir. Það er sú fákeppnisstaða sem er uppi í mikilvægustu matvælaverslun í landinu, t.d. á markaðnum á höfuðborgarsvæðinu þar sem yfirgnæfandi hluti landsmanna býr. Enginn minnsti vafi er á því að þar eru minni afurðasölufyrirtæki og aðilar sem eru birgjar stórra fákeppnisverslunarkeðja settir í afar erfiðar aðstæður og píndir þannig að hlutur þeirra og einnig þeirra sem í gegnum þá framleiða er ekki sérstaklega glæsilegur. Ég held því að hæstv. landbrh. ætti að eiga fundi með félaga sínum viðskrh. oft og lengi um þau mál og vita hvort þar er ekki líka ákveðinn vanda að finna.