Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 23:38:49 (7293)

2000-05-09 23:38:49# 125. lþ. 111.16 fundur 553. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárafurðir) frv. 88/2000, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 125. lþ.

[23:38]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það má til sanns vegar færa hjá hv. þm. að sá sem hér talar sé að byrja að læra að ganga í annað sinn, það þykir nú ekki mikið í minni ætt, þar hafa menn iðulega lent í því að læra að ganga upp í þrisvar og fjórum sinnum á ævinni.

En varðandi stuðning við frv. þá vil ég segja að auðvitað er engum betur ljóst en hv. þm. og formanni landbn. að við greiðum ekki atkvæði í sjálfu sér efnislega um samninginn sjálfan, heldur er hann fskj. með frv. Fyrir utan að taka efni til hans að sjálfsögðu sem þess gernings sem kallar á lagasetninguna, þá tökum við afstöðu til lagaumhverfisins eða rammans og þess sem gæti bæst við í formi einhliða ákvarðana ríkisvaldsins. Að sjálfsögðu höfum við í hendi okkar hér á Alþingi Íslendinga ef okkur sýnist svo að gera betur og vera þarna með ívilnandi viðbætur við samninginn og það er það sem við m.a. erum að lýsa eftir og hefði haft áhrif á afstöðu okkar. Í reynd boðum við það að ef brtt. okkar næðu fram að ganga og viðbótarfjárstuðningur yrði tryggður og þessi tilhögun á framkvæmd samningsins, þá gætum við stutt meginatriði hans. Ég held að ég þurfi ekkert að bæta neinu við það, það skýrir sig að öðru leyti sjálft og birtist mönnum þá eftir atvikum í atkvæðagreiðslum þegar þær verða.