2000-05-10 00:01:58# 125. lþ. 111.23 fundur 522. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv. 24/2000, Frsm. meiri hluta ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 125. lþ.

[24:01]

Frsm. meiri hluta allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. frá meiri hluta allshn. um frv. til laga um kosningar til Alþingis.

Eins og fram kemur í grg. með frv. er það samið af nefnd sem skipuð var af hæstv. forsrh. í október 1999 samkvæmt tilnefningum þingflokka stjórnarflokkanna og þingflokka utan ríkisstjórnar. Var nefndinni falið að semja frv. til nýrra heildarlaga um kosningar til Alþingis. Hlutverk hennar var að útfæra ákvæði 31. gr. stjórnarskrárinnar, eins og henni var breytt með stjórnarskipunarlögum, nr. 77/1999, um kjördæmaskipan og úthlutun þingsæta ásamt öðrum breytingum á kosningakerfinu sem samkomulag um þessar breytingar gerði jafnframt ráð fyrir. Þá var henni falið að fjalla um áður framkomnar tillögur um breytingar á kosningalögum en á 123. löggjafarþingi var lagt fyrir Alþingi frv. til laga um kosningar til Alþingis sem ekki varð útrætt. Þar var um að ræða tillögur nefndar sem fyrrv. dómsmrh. skipaði, samkvæmt tilnefningum allra þingflokka sem þá áttu sæti á Alþingi, til að endurskoða kosningalöggjöfina í heild. Enn fremur var nefndinni falið að ljúka endurskoðun kosningalaganna að öðru leyti.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til breytingar á frv. Breytingartillögurnar fela ekki í sér efnisbreytingar.

Við umfjöllun nefndarinnar hefur komið fram að æskilegt sé að ákvæðum frv. um úhlutun þingsæta sé jafnframt lýst stærðfræðilega á samræmdan hátt sem fjölmiðlar og eftir atvikum aðrir sem láta forrita tölvur til að lesa niðurstöður úr úrslitum kosninga geti stuðst við. Meiri hluti nefndarinnar tekur undir þessa ábendingu og telur mikilvægt að upplýsingar um framkvæmd laganna séu settar fram á samræmdan hátt að þessu leyti. Af því tilefni beinir hann því til landskjörstjórnar að setja þessi ákvæði fram á hlutlausan reiknifræðilegan hátt fyrir hverjar kosningar.

Herra forseti. Meiri hluti allshn. mælir með samþykkt frv. með breytingum sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali.

Hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson og Ásta Möller voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir meirihlutaálit allshn. rita Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Jónína Bjartmarz, Guðrún Ögmundsdóttir, Hjálmar Jónsson, með fyrirvara, Katrín Fjeldsted og Lúðvík Bergvinsson.