2000-05-10 00:05:07# 125. lþ. 111.23 fundur 522. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv. 24/2000, SJS
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 125. lþ.

[24:05]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Reyndar er það svo að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð á aðeins áheyrnarfulltrúa í allshn. Ég mæli því fyrir hönd þess áheyrnarfulltrúa sem að sjálfsögðu á ekki kost á því að skila nál. Um leið mæli ég fyrir brtt. sem ég flyt á sérstöku þingskjali. Þessari brtt. fylgja fylgiskjöl sem dreift verður á borð þingmanna. Þar er á ferðinni sérálit sem ég skilaði í nefnd þeirri er hæstv. forsrh. skipaði og lauk störfum í aðdraganda þess að frv. var lagt fram.

Brtt. mínar eru í samræmi við sérálitið sem ég skilaði í kosningalaganefnd. Að vísu er það svo að við, herra forseti, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs erum mjög gagnrýnir á þær stjórnarskrárbreytingar sem hér voru gerðar á liðnu vori og samþykktar á tveimur þingum. Við studdum þær ekki. Þar af leiðandi verða tillögur okkar nú að skoðast í því ljósi að við erum ekki sátt við þann ramma sem stjórnarskráin setur kosningalagabreytingunum sem nú er verið að gera.

Engu að síður tel ég ljóst að leita megi betri lausna en þeirra sem felast í frv., jafnvel innan þess ramma sem stjórnarskráin hefur sett og verður að sjálfsögðu ekki breytt úr þessu nema að undangengnum tvennum kosningum. Að sjálfsögðu verður að kjósa á grundvelli þeirra ákvæða sem þegar hafa verið tekin upp í stjórnskipunarlög.

Að mínu mati, herra forseti, fara menn með þessari breytingu bil beggja milli tveggja sjónarmiða sem eðlilegt er að horfa til þegar þeir velta fyrir sér kjördæmaskipan í landinu. Annars vegar er litið til þess að kjördæmi myndi ekki landfræðilegar einingar sem séu sundurleitar og of erfiðar til að hafa sem kjördæmi þannig að þingmenn geti sinnt kjósendum sínum. Hins er reynt að sjá til þess að þær einingar sem til verða séu það sterkar og fái þannig staðist að í þeim sé einhver byggðapólitísk viðspyrna og einhver framtíð. Ég leyfi mér að halda því fram að sú lending sem hér á að reyna sé millileið sem þjóni í raun hvorugu þessu markmiði og muni ekki standast lengi.

Um vestanvert og norðaustanvert landið verða til landfræðilega stór en tiltölulega strjálbýl kjördæmi og að óbreyttri búsetuþróun í landinu munu þau, sérstaklega þó Vesturkjördæmið, missa þingmenn strax í öðrum kosningum héðan í frá og það mun síga á sömu ógæfuhlið og áður. Ég held að raunhæfara hefði verið að hafa meiri sveigjanleika í stærð kjördæma og sætta sig við að einhver kjördæmi í landinu yrðu minni og hefðu færri þingmenn en önnur eða hitt, sem hefði að mínu áliti verið vænlegri kostur ef menn stækka kjördæmi umtalsvert á annað borð, að safna saman í tiltölulega stórt og sterkt kjördæmi allri hinni eiginlegu landsbyggð á Íslandi. Þessir tveir möguleikar, herra forseti, eru reifaðir í séráliti mínu og sýndir með dæmum. Því fylgja útreikningar í töflum sem hv. þm. geta kynnt sér.

Sú brtt. sem ég legg til gengur út á að til verði Vesturkjördæmi sem samanstandi af núverandi Vesturlands- og Vestfjarðakjördæmi. Norðlendingafjórðungur hinn forni verði kjördæmi þannig að Norðurlandskjördæmin tvö verði sameinuð. Ég tel, herra forseti, ákaflega óheppilegt og álappalegt við þá niðurstöðu sem í sjónmáli er, ef frv. nær fram að ganga, að skipta Norðlendingafjórðungi upp með kjördæmamörkum og þar með myndist jaðar á landsbyggðinni þar sem síst skyldi, í nágrenni við sterkasta þéttbýlissvæði landsbyggðarinnar, það þeirra sem einhverja möguleika hefði á að vera byggðapólitísk viðspyrna við höfuðborgarsvæðið. Að sjálfsögðu hefði það átt að vera miðpunkturinn í víðlendu kjördæmi til beggja handa. Sú verður ekki niðurstaðan ef frv. nær óbreytt fram að ganga og ég er sannfærður um, herra forseti, að það er eins óskynsamleg lending í málinu í byggðapólitísku tilliti og hægt er að finna.

Í þriðja lagi leggjum við til að til verði Suðausturkjördæmi þar sem Austurland og austurhluti Suðurlandskjördæmis að meðtöldum Vestmannaeyjakaupstað sameinist. Í fjórða lagi yrði Suðurkjördæmi sem væri Árnessýsla og Suðurnes. Sveitarfélögin í nágrenni Reykjavíkur væru í svonefndu Suðvesturkjördæmi og loks Reykjavík eitt kjördæmi. Þar með, herra forseti, eru menn lausir við þá neyðarlegu niðurstöðu að leggja til skiptingu eins sveitarfélags í landinu upp í tvö kjördæmi í kosningum til Alþingis og það sjálfrar höfuðborgarinnar.

Í brtt. kemur fram að með þessu verði fjöldi þingsæta að sjálfsögðu talsvert mismunandi í hverju kjördæmi, þ.e. frá sjö í þremur þeim minnstu og upp í 22 í Reykjavík. Eftir sem áður er með fullnægjandi fjölda jöfnunarþingmanna hægt að ná markmiðum um fullan jöfnuð milli flokka og fara ekki yfir mörk varðandi misvægi atkvæða sem menn hafa gefið sér í þessu starfi og stjórnarskráin gengur út frá, þ.e. það megi mest verða 1:2 áður en til breytinga þeirra komi og þingsæti taka að færast milli kjördæma. Þessir útreikningar, herra forseti, fylgja með í sérálitinu og sú tafla sem þar ber að skoða. Til samanburðar við brtt. er tafla 1a á bls. 4 í sérálitinu. Mynd 1 sýnir kjördæmamörkin eins og þau yrðu samkvæmt tillögunni. Annað eru viðbótarhugmyndir sem reifaðar voru af minni hálfu í þessu séráliti í kosningalaganefnd forsrh.

Í því sambandi vil ég fyrst og fremst nefna möguleika sem einnig er sýndur til að leysa það álitamál sem uppi er varðandi kjördæmamörk á höfuðborgarsvæðinu. Mér sýnist menn hafa valið versta kostinn, það liggur við að ég segi vitlausasta kostinn, herra forseti, þó að maður eigi kannski ekki að taka þannig til orða um hluti af þessu tagi. Þar tel ég alla vega þann versta eða óheppilegasta hafa orðið fyrir valinu, að skipta einu sveitarfélaginu á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. Reykjavík, í tvennt en búa jafnframt til, utan um þessi tvö höfuðborgarkjördæmi, þriðja kjördæmið sem samanstendur af fjórum eyjum, kaupstöðum og sveitarfélögum hér í kring. Ég hefði ósköp einfaldlega talið eðlilegast að horfast í augu við það að þingmenn Reykjavíkur verða samkvæmt þessu 22, hvort sem það er fengið út með því að hafa þá tvisvar sinnum 11 eða einu sinni 22. Það er í raun nægjanleg röksemdafærsla til að undirstrika vandræðaganginn í þessu máli. Það sér hvert barn sem tekið hefur fyrstu skrefin í stærðfræðikennslu í grunnskóla að útkoman er sú sama, þingmenn höfuðborgarinnar verða 22. Sú tala er bara fengin með þessum hætti að margfalda 11 með 2 eða leggja saman 11 og 11, hvora aðferðina sem menn vilja nota. Það fer eftir því, herra forseti, hvort mönnum er tamari samlagning eða margföldun.

Ég hefði talið vænlegra að horfa til höfuðborgarsvæðisins sem heildar og skoða möguleikann á að hafa hér þrjú kjördæmi þar sem algerlega væri horft fram hjá sveitarfélagamörkum en sú staðreynd lögð til grundvallar að í reynd er þetta svæði runnið saman í eitt borgarsvæði. Það væri að mörgu leyti framfaraskref að horfast í augu við það þannig að í kosningum til Alþingis væri kosið í t.d. þremur jafnstórum kjördæmum þar sem mörkin væru skynsamlega dregin svo úr yrðu samstæðar einingar þar sem horft yrði fram hjá sveitarfélagamörkum.

[24:15]

Það segja þeir sem hér heyja kosningabaráttu að það sé næsta ruglingslegt hvort heldur menn eru að heimsækja vinnustaði eða fara um meðal kjósenda á götum í Reykjavík eða nágrannasveitarfélögunum, að oftar en ekki eru menn að ávarpa kjósendur annarra kjördæma en sinna eigin þar sem hér er um einn vinnumarkað og eina samskiptalega heild að ræða. Að því leyti til væri ekkert óeðlilegt að horfa á þetta sem eitt stórt svæði í kosningum til Alþingis. Slíkt gæti líka mögulega ýtt undir samstarf sveitarfélaga á svæðinu og leitt til þess sem ég tel að mörgu leyti æskilegt að menn hefðu sem framtíðarmarkmið án þess að ég ætli mér þá dul að fara að gefa sveitarstjórnarmönnum eða öðrum ráðamönnum á svæðinu mikil ráð að horfa til þess að í fyllingu tímans yrði hér til einhvers konar yfirhöfuðborgarsvæðisstjórn eða ráð sem samræmdi ýmsa hluti á þessu svæði. Kjördæmabreyting af þessu tagi gæti, herra forseti, einmitt ýtt undir að slíkt næði fram að ganga.

Við höfum sem sagt, herra forseti, gagnrýnt þessar breytingar, teljum þær ekki vel heppnaðar, hvort sem heldur er stjórnarskrárbreytingin eins og hún var og sá rammi sem hún setur væntanlegum kosningalögum og ekki einu sinni heldur þessi útfærsla á kosningalögunum innan þess ramma. Mér segir svo hugur að ég muni reynast sannspár þegar ég spái því að þessi breyting muni ekki standa mjög lengi.

Hitt er ljóst, herra forseti, að það verður að lagfæra löggjöf landsins þannig að hún sé í samræmi við stjórnarskrána og hægt sé að kjósa. Ég væri mikill stuðningsmaður þess að menn boðuðu sem allra fyrst til kosninga á Íslandi. Ég ætla því í sjálfu sér ekki, þrátt fyrir andstöðu mína við málið, að tefja það mikið frekar að þeir hlutir komist í lag. Uppi er sú sérkennilega staða í landinu að ef skyndilega yrði þingrof og skyllu á kosningar, þá er í raun ekki hægt að kjósa, því kosningalög landsins eru í verulegu ósamræmi við stjórnarskrána. Þar af leiðandi yrði sennilega að grípa til þess sérstæða úrræðis að setja kosningalög með bráðabirgðalögum ef t.d. þessir atburðir gerðust óvænt nú á sumardögum.

Það væri heldur dapurlegur kostur, herra forseti, þannig að auðvitað verða menn með einhverjum hætti að afgreiða málið og koma kosningalögunum í nothæft horf og þannig í samræmi við stjórnarskrána að það gangi upp. Ég vonast hins vegar til að sú skipan standi ekki lengi og menn fari fyrr en síðar af stað með það á nýjan leik að finna heppilegri niðurstöðu. Það þarf að gera fljótt áður en sú kjördæmaskipan sem nú er verið að draga upp festist þannig í sessi að hún fari að verða leiðandi um samstarf aðila á þessum svæðum, en það sýnir reynslan að gerist ótrúlega hratt í kjölfar breytinga af þessu tagi.

Þar af leiðandi er í raun, herra forseti, ekkert mark á þeim málflutningi takandi sem hér hefur enn heyrst í röksemdafærslu fyrir þessu frv. að eingöngu sé um kosningatæknileg mörk að ræða og þetta muni engin áhrif hafa á samstarf aðila á þeim svæðum sem þarna koma við sögu. Þetta sagði m.a. formaður kosningalaganefndar, hæstv. fjmrh., Geir H. Haarde. Ég tek ekkert mark á slíku. Reynslan segir okkur allt annað og ég er sannfærður um að í framhaldi af þessum breytingum fari í gang og á fulla ferð tilburðir til að reyna að byggja upp á nýjan leik eðlilegt samstarf sveitarfélaga, félagasamtaka og ýmissa aðila innan þessara svæða. Ég er sannfærður um að framkvæmdarvaldið sjálft og löggjafinn fer einnig að líta til þess og opinberir aðilar fara að skipuleggja sína starfsemi o.s.frv.

Þá mun hins vegar koma í ljós að þær landfræðilegu einingar sem nú er verið að draga upp sem kjördæmi eru ákaflega óheppilega dregnar. Menn eru að mínu mati ekki búnir að súpa seyðið af því.

Herra forseti. Ég held ég hafi ekki fleira um þetta að segja, a.m.k. ekki með tilliti til þeirra aðstæðna sem eru nú uppi í þinghaldinu, að stefnt hefur verið að því að ljúka því á tilsettum tíma. Til þess að það megi gerast þurfa allir að leggja sitt af mörkum, bæði með því að hafa umræður eins knappar og kostur er og sýna lipurð gagnvart því að þau mál sem eiga að ná afgreiðslu nái fram að ganga, en önnur sofni þá svefni hinna réttlátu.