2000-05-10 00:20:55# 125. lþ. 111.23 fundur 522. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv. 24/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 125. lþ.

[24:20]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Í lok síðasta kjörtímabils og byrjun þessa var í áföngum samkvæmt stjórnarskrá samþykkt breyting á stjórnarskrá Íslands sem knýr okkur inn á þá braut sem við erum nú komin, að skipta landinu á nýjum forsendum upp í kjördæmi. Samkvæmt stjórnarskrárbreytingum sem meiri hluti þingsins samþykkti vorum við skuldbundin til að draga markalínur á þann veg að kjördæmin verði sex til sjö talsins. Fyrir liggur tillaga frá meiri hluta þeirra nefnda sem um þessi mál hafa fjallað og einnig liggur fyrir tillaga frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni um aðra skipan mála. Mér segir svo hugur, herra forseti, að þótt það sé minnihlutatillaga, eigi hún hljómgrunn í hjörtum og samvisku æðimargra, utan þings sem innan. Ég ætla að fara nokkrum orðum um þá tillögu og þær breytingar sem standa nú fyrir dyrum.

Fyrst langar mig til þess að víkja örfáum orðum, mun ekki verða langorður um það efni, að till. til þál. sem ég flutti á þinginu um endurskoðun kosningalaga vegna þess að breytingar hafa verið gerðar á frv. til laga um kosningalög, breytingar á því fyrirkomulagi sem við búum við nú, í átt til þess sem ég lagði til í þáltill.

Þáltill. gekk út á að tryggja að sjúklingar, aldraðir og öryrkjar gætu ávallt nýtt kosningarrétt sinn.

Í öðru lagi að jafnan fjalli óháður aðili um kærumál sem upp kunna að koma í tengslum við framkvæmd kosningalaga.

Samkvæmt núgildandi kosningalögum er heimildar\-ákvæði sem gerir ráð fyrir að vistmenn á elliheimilum og sjúkrastofnunum geti neytt kosningarréttar síns þar og yfirleitt hefur verið orðið við beiðnum sem hafa komið fram um slíka atkvæðagreiðslu. Ekki er það þó einhlítt og kom t.d. upp mikið deilumál á Sauðárkróki þegar atkvæði voru greidd um sameiningu sveitarfélaga. Deilunum lyktaði á þann veg að þeim var vísað til dómstóla og fóru fyrir tvenn dómstig, undirrétt og einnig Hæstarétt.

Ég hef kynnt mér nokkuð þessi mál og málatilbúnað sem þeim tengjast og gerði grein fyrir því í greinargerð í umræddri þáltill. auk þess sem ég birti þar gögn sem ég hef áður gert grein fyrir.

Það sem mig langaði til að vekja athygli á er að um þessi mál er fjallað í 58. gr. en þar segir samkvæmt frv. sem nú liggur fyrir að:

,,Kjósanda, sem er til meðferðar á sjúkrahúsi eða vistmaður þar, á dvalarheimili aldraðra og stofnun fyrir fatlaða, er heimilt að greiða atkvæði á stofnuninni. Með sama hætti fer um fangelsi og vistmenn þar.``

Ég er að vitna, með leyfi forseta, í frumvarpsgreinina. Þar segir enn fremur:

,,Kjósanda, sem ekki getur sótt kjörfund á kjördegi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar, er heimilt að greiða atkvæði í heimahúsi nema hann eigi kost á að greiða atkvæði á stofnun skv. 2. mgr. Ósk um að greiða atkvæði í heimahúsi skal vera skrifleg og studd vottorði lögráða manns um hagi kjósandans og hafa borist hlutaðeigandi kjörstjóra eigi síðar en kl. 16 fjórum dögum fyrir kjördag.`` Síðan heldur áfram.

En í umsögn um þessa greinargerð segir, með leyfi forseta:

,,Orðalagi 2. og 3. mgr. [þ.e. 2. og 3. mgr. 58. gr.] er breytt þannig að ljóst sé að þeir kjósendur, sem undir ákvæðin falla, eigi rétt á að greiða atkvæði á hlutaðeigandi stofnun eða í heimahúsi og að kjörstjóra beri þá að hlutast til um að kosningin fari fram. Um framkvæmdina gilda svo nánari reglur settar skv. 5. mgr.``

Og síðan heldur áfram útskýring á þessari lagagrein.

Þetta tel ég vera spor í rétta átt og í anda þeirrar tillögu sem ég flutti. Hins vegar mun ég fara nánar yfir þessar greinar áður en þing kemur saman að nýju og íhuga hvort ástæða er til að bera fram frekari tillögur. En ég tel þetta a.m.k. vera spor í þá átt sem ég gerði tillögur um. Eftir stendur að tryggja óhlutdrægan aðila sem tæki við kærumálum sem upp kunna að koma í tengslum við atkvæðagreiðslu en í því máli sem ég vitnaði áðan til og fjallaði um sameiningu sveitarfélaga og framkvæmd var á vegum félmrn., þá er það félmrh. sem átti sjálfur og var hlutaðeigandi að því máli, að úrskurða um þær deilur sem komu upp. Þetta eru atriði sem ég tel að þurfi að taka til frekari skoðunar þótt síðar verði.

Herra forseti. Þetta langaði mig til að vekja athygli á í upphafi máls míns, en hafa síðan örfá orð um þær tillögur sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur lagt fram. Í grófum dráttum ganga þær út á að breyta kjördæmaskipaninni frá því sem meiri hlutinn leggur til. Að mínum dómi er veigamesta atriðið að samkvæmt tillögunum er gert ráð fyrir að Reykjavík verði eitt kjördæmi, borginni verði ekki skipt upp í tvö kjördæmi og síðan kjördæmi grannsveitanna skipt upp í fjóra, fimm hluta, sem síðan myndi eitt kjördæmi. Þetta er eins afkáraleg lausn og hugsast getur, en hér er með skipulagðari hætti reynt að mynda heildstæð kjördæmi á suðvesturhorninu.

Ég leyfi mér, herra forseti, að halda því fram og mjög ákveðið að þessi tillaga þjóni betur hagsmunum Reykvíkinga og sé mjög í anda þess sem menn hefðu viljað sjá borið fram á þinginu. Enda þótt það sé nú svo að meiri hluti hafi myndast tímabundið um aðra skipan mála leyfi ég mér að hvetja hv. þm. til að endurskoða hug sinn. Menn vísa í samkomulag sem gert hafi verið á síðasta kjörtímabili um breytingu á stjórnarskránni. Það kann vel að vera að einhverjir telji sig skuldbundna slíku. Þótt ég hafi haldið því fram að menn séu ekki skuldbundnir í þessu máli fremur en öðrum, en mjög svo í þessu máli, gagnvart neinu öðru en eigin samvisku og menn eigi að hlýða eigin dómgreind. Til þess er stjórnarskrárbreyting látin ganga til tveggja þinga að þar með er talið tryggt að skynsamlegar breytingar séu gerðar og byggir þetta einnig á því að ekki sé gert samkomulag milli aðila sem haldi á milli þinga.

[24:30]

Þetta er gert beinlínis til þess að tryggt sé að tvö þing komi að stjórnarskrárbreytingum.

Herra forseti. Ég vil lýsa eindregnum stuðningi við þessar tillögur. Það er liðin tíð að við getum talað um óskastöðuna í þessum efnum, en ég var einn þeirra sem voru þess ekki fýsandi að gera þær breytingar sem nú liggja fyrir á kjördæmaskipan í landinu, taldi hana að ýmsu leyti vera hagstæða, það þjónaði einkum hagsmunum þeirra byggðarlaga sem fjarri eru höfuðborginni að vera smá og hafa samhenta liðsveit sem sinnti þeim sérstaklega. Mér fannst ekkert athugavert við það heldur gæti það verið góðra gjalda vert. En þegar það fer síðan saman að Reykvíkingar og þéttbýlisbúar á suðvesturhorninu sem höfðu yfirleitt litið á sig sem þingmenn landsins alls fóru að hugsa á aðra vísu sem þingmenn suðvesturhornsins og þéttbýliskjarnans, hugsun sem mér er reyndar ekki að skapi, en þetta er nokkuð sem er að gerast, þegar það fer saman við þá breytingu að vægi þeirra aðila eykst samkvæmt nýrri kjördæmaskipan, þá finnst mér komin upp sú staða að gera landið að einu kjördæmi þannig að menn fái vilja sínum framgengt að atkvæðin vegi jafnt yfir allt landið. Reyndar vildi ég að með þeim breytingum fylgdu breytingar á stjórnsýslunni sem færði vald á nýjum forsendum til byggðarlaga, en það er önnur saga og það er liðin tíð að við getum rætt um þetta vegna þess að við erum bundin af þessum stjórnarskrárbreytingum.

Ýmsir hafa sagt að þessi breyting sé skref í þá átt að gera landið að einu kjördæmi. Ég held að átt hefði að stíga það skref til fulls. Ég er ekkert viss um að þessi hallærislausn, þessi lending, verði til að flýta fyrir róttækari breytingum sem ég tel nauðsynlegt að gera. Ég er alveg sannfærður um að þetta þjónar ekki skynseminni og þetta þjónar aldeilis ekki dreifbýlinu vegna þess að nú er búið að gera kjördæmin á landsbyggðinni það stór að þingmenn eiga mjög erfitt um vik að sinna risastórum kjördæmum. Hvernig sem á málið er litið er sú lausn sem hér er verið að leggja til ekki heppileg.

En tillaga hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar gengur út á að reyna að koma skynseminni ögn betur að og ég hef trú á því að hún falli einnig meiri hluta kjósenda betur í geð. Og ég tel það skyldu okkar alþingismanna að láta skynsemina og lýðræðislegan vilja ráða í þessu máli.