2000-05-10 00:57:17# 125. lþ. 111.23 fundur 522. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv. 24/2000, KPál
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 125. lþ.

[24:57]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Það mál sem er til umræðu er eitt af stærri málum sem koma upp í hv. Alþingi hverju sinni og hefur ekki verið farið út í breytingar á kjördæmamörkum með svo afgerandi hætti síðan 1959. Síðan kjördæmamörkin voru ákveðin á sínum tíma og við höfum kosið eftir síðan hefur að sjálfsögðu margt breyst í þjóðfélaginu. Fólk hefur verið mjög mikið á ferðinni þannig að atkvæðavægi í kjördæmum hefur breyst það mikið að ekki hefur þótt ásættanlegt að hafa óbreytt kjördæmamörk miðað við það misvægi sem orðið hefur og valdið mikilli óánægju í hinum fjölmennari kjördæmum. Þegar misvægið er orðið 1:4 var augljóst að gera þurfti einhverjar róttækar breytingar sem jöfnuðu það ástand.

Sú tillaga sem kjördæmanefndin lagði fram og að endingu varð samkomulag um er út af fyrir sig engin töfralausn og ljóst að mikil óánægja er með hana en samt eru menn ekki með á takteinum neina aðra betri patentlausn sem gæti jafnað þetta vægi atkvæða betur en kemur fram í þeirri tillögu. Þess vegna hef ég fyrir mitt leyti samþykkt þessa tillögu þó svo að við sjáum ýmsa erfiðleika við ná yfir þau nýju kjördæmi sem nú er verið að tala um sem verða afskaplega stór og umfangsmikil.

Ég hygg að þeir þingmenn sem eru í þessum stærri kjördæmum geti huggað sig við það að þegar kjördæmabreytingin var gerð 1959 voru samgöngur engan veginn eins góðar og þær eru í dag. Yfirferð yfir kjördæmin var miklu tímafrekari þá en hún er núna þrátt fyrir þessa miklu stækkun. Ég get því ekki séð annað en að þingmenn sem lenda í þessum nýju stóru kjördæmum eigi að ná að fara yfir kjördæmin á tiltölulega skömmum tíma og reyndar á miklu skemmri tíma en áður hefur verið, sérstaklega í upphafi þess tíma þegar kjördæmabreytingin var gerð 1959.

[25:00]

Auðvitað verður samfara þessum breytingum að gera ýmsar ráðstafanir í samgöngumálum og komið hafa fram tillögur um það. Ein af þeim er svokölluð jarðgangaáætlun sem litið hefur dagsins ljós. Auðvitað eru menn heldur ekki sammála um það hvernig sú jarðgangaáætlun lítur út en eigi að síður geta þó allir verið sammála um að ef Siglufjörður á að tengjast Norðausturkjördæmi er afskaplega erfitt að sjá göng í aðra átt til þess að geta komist yfir í rétt kjördæmi. Að því leyti til má segja að áætlunin sé rökrétt þó svo að deila megi um hvort hún sé endilega sú rétta leið sem hefði þurft að fara til þess að tengja byggðina betur við önnur svæði landsins og hvort önnur göng gögnuðust Siglfirðingum betur en þessi eða hvort þau gagnast yfirleitt.

Annað svæði þarf augsýnilega á slíkri tengingu að halda til þess að tengja saman mjög stórt kjördæmi en það er Suðurkjördæmi þar sem Suðurnesin og Suðurlandið munu sameinast í eitt kjördæmi ásamt Hornafirði eða sem sagt Vestur- og Austur-Skaftafellssýslum. Þetta kjördæmi verður mjög langt en sá galli er á gjöf Njarðar í þessu tilfelli að Suðurnesin eiga ekki tengingu sem kalla má aksturshæfan veg öðruvísi en að fara í gegnum tvö önnur kjördæmi, þ.e. Suðvesturkjördæmi og Reykjavíkurkjördæmi.

Þess vegna hefur verið lögð mjög mikil áhersla á af okkar hálfu sem tilheyrum Suðurnesjum í dag og eigum að tengjast yfir á Suðurlandið að Suðurstrandarvegur sé forsenda þess að hægt sé að setja þetta kjördæmi upp þannig að trúverðugleiki sé yfir breytingunni.

Þetta hefur sem betur fer verið tekið mjög alvarlega og samkvæmt þeirri nýju vegáætlun sem nú mun líta dagsins ljós er tekið á Suðurstrandarveginum og byrjun á þeirri framkvæmd þannig að það verða sýnilegar verulegar samgöngubætur strax við upphaf nýs kjörtímabils árið 2003. Ég á ekki von á öðru en að þetta kjördæmi, Suðurkjördæmi, verði tengt með Suðurstrandarvegi strax á næsta kjörtímabili og að því leytinu til munu þingmenn Suðurkjördæmis geta starfað hindrunarlítið en um svæðið sem slíkt má segja að það á mjög margt sameiginlegt, m.a. eru þar nokkur stærstu sjávarútvegspláss landsins og hægt er að skapa heilmikla samvinnu um þau. Ferðamálin eru einnig mjög ríkur þáttur í atvinnulífinu á þessu svæði og ljóst að vinsælustu ferðamannastaðir landsins verða í Suðurkjördæmi og hef ég ekki heyrt annað á Suðurnesjamönnum en að þeir líti til þess með bjartsýni að sameina þessi tvö svæði þó svo að ég geti tekið undir það með öðrum þingmönnum í kjördæminu að eftirsjá er af öðrum hlutum kjördæmisins og þeirri breytingu sem á því verður. En ekki verður allt fengið ef menn vilja nauðsynlegar breytingar til þess að jafna vægi atkvæðanna.

Ýmsar aðrar tillögur hafa komið hér til umræðu, m.a. tillögur frá vinstri grænum. Aðrar tillögur hafa verið í umræðu en vinstri grænir hafa komið hér með útfærslur sem eru út af fyrir sig nægjanlegar til þess að mæta þessu svokallaða vægi atkvæði þannig að misvægið verði ekki meira en 1:2. En það verður samt að segjast eins og er að það er engin meiri patentlausn en hitt. Ef Reykjavík á að ná yfir allt sitt núverandi svæði þá sjáum við að Reykjavík er út af fyrir sig að kljúfa Suðvesturkjördæmið í þrjá hluta. Með þessari hugmynd vinstri grænna verður Reykjavíkurkjördæmi nærri tvöfalt og rúmlega það sums staðar, jafnvel þrefalt, í þingmannatölu sem er líka mjög erfitt að samræma og mundi gera Reykjavík í rauninni allt of öflugt kjördæmi. Þó svo að verið sé að skipta bæ, ef það mætti orða það þannig, þá eru samt tveir þingmannahópar og þannig mundu þeir virka.

Margir hafa velt því fyrir sér hvort þessi kjördæmabreyting sé ekki undanfari þess að landið verði gert að einu kjördæmi og vel má vera að það verði niðurstaðan eftir nokkur ár. En ég mundi nú segja að til þess þyrfti sennilega þrjú til fjögur kjörtímabil eða 12--16 ár þangað til að sú breyting yrði gerð. Það veit enginn hvaða breytingar verða yfirleitt orðnar á stjórnskipun Íslands á þeim tíma.

Eigi að síður hafa menn litið á mörg kjördæmi sem mun heppilegri leið til þess að þingmenn haldi sambandi við kjósendur þannig að kjósandinn hafi aðgang að ákveðnum mönnum sem þjóna honum á Alþingi. Þannig hefur það verið mjög lengi og þannig tel ég að fólk vilji hafa það áfram. Að gera landið að einu kjördæmi hefur að sjálfsögðu líka kosti. En mér líst þó betur á það eins og málin standa í dag að skipa landinu niður í kjördæmi þar sem fólkið ræður uppstillingu á lista með prófkjörum eða á annan hátt. Ef landið yrði gert að einu kjördæmi eru mjög miklar líkur á því að flokkarnir einir réðu því hvernig uppröðun á lista færi fram og hverjir yrðu á þeim listum þannig að samband við kjósendur við uppstillingu á lista yrði mun minna og tenging fólksins við þingmennina sína þar af leiðandi miklu minni því engin trygging væri fyrir því að þingmönnum sem yrði raðað upp samkvæmt þessu væri dreift um landið allt.

Í mínum huga er því miklu heppilegri lausn og sennilega langskársta lausnin sem hægt var að finna sú sem samþykkt hefur verið af kjördæmanefndinni og er nú lögð fram hér af hv. allshn. Því fagna ég því að náðst hafi þessi mikilvægi áfangi og við sjáum ekki annað en það þjóni akkúrat því að ná jafnvæginu þó svo að við náum því sennilega aldrei alveg undir þeim formerkjum að skipta landinu upp í kjördæmi.

Ég heyrði að hv. þm. Þuríður Backman taldi að Höfn í Hornafirði ætti að fylgja Norðausturkjördæminu og fólkið á Höfn í Hornafirði væri komið með bakþanka yfir því að tillagan gerði ráð fyrir að það tilheyrði Suðurkjördæminu. Mér finnst nú dálítið leiðinlegt ef það verður með hálfum huga sem Hornfirðingar eru að sameinast Suðurkjördæminu, því að þetta er alfarið í þeirra höndum. Enginn hefur verið að reyna að þrýsta á Hornfirðinga í þá átt að þeir kæmu í Suðurkjördæmið. Aftur á móti fögnum við því ef þeir hafa áhuga á því og ég á ekki von á öðru en þeir mundu falla vel inn í það svæði.

Mér finnst í rauninni ekki hægt að koma með umræðuna hingað inn eins og mér fannst hv. þm. gera, að fólkið sjálft væri í sjálfu sér að verða óánægt með þá tilhögun. Það hefur ekkert heyrst annað en að mikill vilji sé fyrir því hjá Hornfirðingum að fara yfir í Suðurkjördæmið. Ég hitti sjálfur nokkra Hornfirðinga, reyndar fyrir tveimur árum síðan þegar þessi umræða var í nokkrum hápunkti, og þá var á þeim að heyra að þeim fyndist eðlilegra að vera á þessu svæði, þ.e. á suðursvæðinu, vegna miklu meiri tengsla, fyrst og fremst vegna þess að fólkið hefur sótt sína þjónustu frekar á suðvesturhornið og Suðurlandið heldur en fyrir austan.

Eins og ég sagði áðan þá var það að sjálfsögðu á valdi Hornfirðinga sjálfra að velja þarna og ég tel að þeir hafi gert það og ætla mér ekki að efast neitt um það, þrátt fyrir orð hv. þm. Þuríðar Backman, að þeir hafi ekki áhuga á því að koma yfir í Suðurkjördæmið.

Ég vil að lokum þakka nefndinni fyrir vel unnin störf að þessu leyti.