2000-05-10 01:51:31# 125. lþ. 111.17 fundur 280. mál: #A persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga# (heildarlög) frv. 77/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 125. lþ.

[25:51]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að lýsa stuðningi við þetta frv. Frv. er vel unnið. Það hefur fengið vandaða málsmeðferð í allshn. og á formaður nefndarinnar lof skilið fyrir verkstjórn og vinnubrögð.

Þetta er grundvallandi lagafrv. sem skiptir máli að sé fyrir hendi og að það sé vandað. Hann er vandrataður vegurinn á milli þess að gæta persónuverndar annars vegar og hins að tryggja að samfélagið sé opið en ekki lokað. Mér finnst það t.d. vera heilbrigðisvottur að á Íslandi skuli fara fram umræða um tekjur og tekjumun í samfélaginu. Á hverju sumri gerist það í tengslum við birtingu skattskrár og fleira mætti nefna sem dæmi um að okkar samfélag er á margan hátt opnara en gerist með ýmsum öðrum þjóðum þótt þeirrar tilhneigingar gæti í allt of ríkum mæli að loka því sem áður var opið.

Margt í þessu frv. er að mínum dómi mótsagnakennt og orkar tvímælis. Þannig á ég erfitt með að skilja að upplýsingar um veruleg félagsleg vandamál skuli ekki flokkast undir viðkvæmar persónuupplýsingar en á sama tíma flokkast undir þann lið aðild að stéttarfélögum. Þetta finnst mér mótsagnakennt og ég á erfitt með að skilja hvað veldur þótt hv. þm. Þorgerður Gunnarsdóttir hafi reifað þessi efni að hluta til í framsöguræðu sinni.

Eitt atriði vil ég sérstaklega gera athugasemd við og það er stjórnsýslan, þ.e. skipulag Persónuverndar og hverjir fara þar með stjórn. Samkvæmt frv. eins og það upphaflega var lagt fyrir átti ráðherra að skipa fimm manna stjórn Persónuverndar án tilnefningar, tveir áttu að vera lögfræðingar sem fullnægðu hæfisskilyrðum héraðsdómara og skyldi annar vera formaður og hinn varaformaður nefndarinnar. Á þessu hefur nú verið gerð breyting og er hún vissulega til bóta því að nú eru komnir tveir tilnefningaraðilar til sögunnar, Hæstiréttur annars vegar og hinn er Skýrslutæknifélag Íslands. Ég ætla að láta liggja milli hluta hversu heppilegt er að þessir aðilar skuli vera tilnefningaraðilar en hitt vil ég gagnrýna harðlega að ráðherra skuli eiga að skipa þrjá stjórnarmenn Persónuverndar af fimm án tilnefningar. Ég held nefnilega að það skipti mjög miklu máli varðandi stjórn eftirlitsaðila á borð við Persónuvernd, sem er sambærileg við núverandi tölvunefnd en tekur breytingum og fær breytta nafngift við gildistöku þessa lagafrv., að óháðir tilnefningaraðilar komi þar við sögu. Ég hefði talið heppilegt að einn þessara aðila væri Háskóli Íslands, sem jafnvel tilnefndi tvo aðila, hugsanlega Siðfræðistofnun og lagadeild háskólans. Mér hefði ekki fundist óeðlilegt að Neytendasamtökin hefðu tilnefningarrétt svo dæmi sé tekið. En að fela ráðherra valdið til að skipa meiri hluta nefndarinnar finnst mér ekki vera æskilegt, á engan hátt, þótt þetta sé skref sem stigið hafi verið fram á við með þeim brtt. sem hv. þm. Þorgerður Gunnarsdóttir gerði grein fyrir í framsögu sinni.

Ég vil minna á að vísindasiðanefnd var á sínum tíma skipuð af ráðherra að vísu en samkvæmt tilnefningum óháðra aðila enda fór svo að þegar upp kom ágreiningur á milli þessarar nefndar og framkvæmdarvaldsins um mjög viðkvæmt átakamál og deilumál í samfélaginu, gagnagrunn á heilbrigðissviði, þá einfaldlega rak ráðherrann nefndina. Hann gat þjónað sinni lund vegna þess að reglugerðarvaldið hvíldi hjá hæstv. ráðherra. Hann rak nefndina og breytti reglugerðinni á þann veg að tilnefningarvaldið var í ríkara mæli en áður fært til framkvæmdarvaldsins. Þetta er skref aftur á bak og reyndar ekki í samræmi við alþjóðlegar samþykktir sem gilda um þessi efni, um að þessir aðilar, vísindasiðanefnd og ég hefði haldið einnig stjórn Persónuverndar, skyldu vera eins óháð framkvæmdarvaldinu og kostur er. Jafnvel þótt við búum við þann lagaramma að tiltekinn ráðherra skipi endanlega í nefndina þá er mikilvægt að óháðir aðilar hafi tilnefningarvaldið á hendi.

Að lokum þetta, herra forseti. Þótt ég hæli þessu frv. og telji það mikilvægt og gott, það er mikilvægt að hafa grundvallarlöggjöf um þessi efni, það er mjög mikilvægt, þá vil ég þó segja að þarna eru atriði sem ég sakna. Mesta átakamál sem snertir persónuvernd á undanförnum árum og ég vildi segja áratugum, bara á seinni tímum, er gagnagrunnur á heilbrigðissviði. Og það var stundum átakanlegt að hlusta á menn í annars ágætri nefndarvinnu í allshn. ræða um upplýst samþykki og margvísleg atriði sem lúta að persónuvernd en þegar kom að því deilumáli sem hæst ber, um gagnagrunn á heilbrigðissviði, þá voru menn valdalausir og ráðalausir vegna þess að gagnagrunnur á heilbrigðissviði er með sérlögum undanskilinn ákvæðum þessara laga sem eiga að vernda rétt einstaklingsins. Ef þetta frv. hefði legið fyrir þegar frv. um gagnagrunn á heilbrigðissviði var lagt fyrir Alþingi þá er ég ansi hræddur um að það hefði átt erfiðar uppdráttar og aðstandendur þess átt erfiðar uppdráttar að koma því í gegnum þingið vegna þess að það hefði strítt gegn ákvæðum þess frv. sem hér á að gera að lögum. Það er nú bara staðreynd málsins.

Ég vil vekja athygli á því á þessari stundu áður en við samþykkjum þetta mikilvæga frv. um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga að ég er margoft búinn að óska eftir því við þingið og ráðherra, fulltrúa ríkisstjórnarinnar, að veita upplýsingar um samskipti heilbrigðiskerfisins og Íslenskrar erfðagreiningar. En engin svör er að fá. Og ekki hefur það heldur fengist framgengt varðandi gagnagrunn á heilbrigðissviði að tryggja upplýst samþykki, að ekki sé á það minnst að þeirrar kurteisi er ekki gætt að spyrja fólk leyfis áður en upplýsingar um það eru sendar í gagnagrunn á heilbrigðissviði og gerðar þar að söluvöru fyrir erlend tryggingafélög og lyfjafyrirtæki. Þetta er siðleysi og þetta er nokkuð sem við hefðum átt að taka til umfjöllunar í tengslum við þessi lög. Það er hryggilegt að þessi atriði, þessi þáttur persónuverndarinnar skuli undanþeginn þessu frv. sem ég ítreka, herra forseti, að ég tel vera mikið framfaraspor og lýsi stuðningi við.