2000-05-10 02:04:39# 125. lþ. 111.17 fundur 280. mál: #A persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga# (heildarlög) frv. 77/2000, LB
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 125. lþ.

[26:04]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frv. til laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og ég vil í upphafi máls míns þakka allshn. og sérstaklega hv. formanni allshn. fyrir góða vinnu í þessu máli og vönduð vinnubrögð.

Ég held, virðulegi forseti, að þó að við séum að stíga fyrstu skrefin á þessu sviði muni þau lög sem ætlunin er að lögfesta og eru nú til 2. umr. reynast okkur farsæl. Ég held að öll sú vinna sem lögð hefur verið í þetta mál sé þess eðlis að þó að ýmislegt megi sjálfsagt betur fara sé hér ágætlega af stað farið. Ég hef þá trú að það markmið náist sem stefnt er að með lögunum, þ.e. vernd persónuupplýsinga fyrst og fremst, auk þess sem lögunum er ætlað að tryggja frjálst flæði upplýsinga á EES-svæðinu, og ég er ekki í nokkrum vafa um að þessi fyrstu spor okkar á þessu sviði muni verða okkur happadrjúg.

Ég vil, virðulegi forseti, taka aðeins undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni sem nefndi það áðan að mjög mikilvægt hefði verið að þessi almennu lög, þ.e. lög um persónuvernd, hefðu legið fyrir þinginu og hefðu jafnvel verið samþykkt þegar frv. til laga um gagnagrunninn kom til umræðu.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að sú umræða sem fram hefur farið í aðdraganda og vinnslu þess frv. sem við ræðum nú hefur dýpkað mjög umræðuna um persónuverndina og vakið okkur til umhugsunar um hversu mikilvægt þetta svið er, sérstaklega í ljósi þeirra öru breytinga sem eru að verða á tæknisviðinu og þeirrar upplýsingabirtingar sem við erum að ganga í gegnum. Ég held að gildi persónuverndar í framtíðinni verði mjög mikið, ég held að mjög mikilvægt sé að hún verðin tryggð því að öll sú tækni sem við erum að tileinka okkur og er að verða til gerir það að verkum að miklum mun auðveldara er að vinna með slíkar upplýsingar og um leið má þá segja að miklu meiri hætta sé á því að friðhelgi einkalífs verði raskað.

Það eru nokkur atriði, virðulegi forseti, sem ég vildi nefna í þessari umræðu en eins og komið hefur fram stend ég ásamt öðrum nefndarmönnum í hv. allshn. að því nál. sem hv. frsm. og formaður nefndarinnar flutti áðan og kannski ekki miklu við það að bæta. Það eru þó nokkur atriði sem ég vildi nefna.

Í fyrsta lagi vildi ég nefna það sérstaklega að frv., verði það að lögum sem ég reikna fastlega með, er lagt upp þannig að sömu reglur gilda um opinbera aðila og einkaaðila. Sömu reglum er ætlað að gilda um þessa aðila þegar þeir vinna og fara með persónuupplýsingar. Ekki er gerður greinarmunur á opinberum aðilum og einkaaðilum í þessu sambandi og ég held að mjög mikilvægt sé að allir sem koma að því að vinna persónuupplýsingar séu meðvitaðir um að ganga varlega um slíkar upplýsingar og það breytir engu hvort stofnunin heyrir undir hið opinbera eða hvort um einkaaðila er að ræða. Ég held að með því sé persónuvernd hvað best tryggð að þetta sé gert með þessu móti og það er markmiðið með lögunum.

Þó að ég sé í sjálfu sér mjög íhaldssamur þegar kemur að meðferð og vinnslu persónuupplýsinga þá held ég að hér sé mjög hæfilega og vandlega af stað farið og af mjög yfirveguðu ráði og ekki sé neitt yfirkeyrt þó að, eins og ég sagði áðan, einhver atriði hefðu sjálfsagt mátt betur fara en reynslan á örugglega eftir að kenna okkur að það er ýmislegt sem þarf að huga að. Það breytir ekki hinu að ég er sannfærður í minni trú um að það frv. sem hér liggur fyrir sé mjög vandað og eigi eftir að færa okkur aðeins áfram á þessu sviði.

Í öðru lagi vildi ég nefna það, virðulegi forseti, að mér þykir mjög leiðigjarnt í lagasetningu að sí og æ sé verið að fá Hæstarétt til að tilnefna einstaklinga til að sitja í nefndum og ráðum. Það er einu sinni þannig að við skiptum þessu blessaða ríkisvaldi okkar upp í þrennt og ég er þeirrar skoðunar að Hæstiréttur eigi að einbeita sér að því að komast að niðurstöðum í þeim málum sem undir hann eru borin en ekki vera að tilnefna í nefndir framkvæmdarvaldsins. Þó að ég sé ekki að gera því skóna að það hafi áhrif á niðurstöðu réttarins komi mál til hans sem þær nefndir sem hann hefur tilnefnt í hafi áður fjallað um, þá er ég þeirrar skoðunar og hef verið lengi að Hæstiréttur eigi að einbeita sér að öllu öðru en afskiptasemi af verkefnum framkvæmdarvaldsins. Mér þykir það miður að þetta skuli vera í brtt. nefndarinnar við 36. gr. frv. En þetta varð niðurstaða meiri hlutans og er kannski ekki það stórt atriði að ástæða sé til að skilja sig frá meiri hlutanum. En mér þykir þetta mjög hvimleitt og ég held að rétt væri fyrir hið háa Alþingi að hyggja mjög að því að breyta þessum vinnubrögðum því ég held, virðulegi forseti, að þetta vinnulag eigi að heyra fortíðinni til.

Við 1. umr. um frv. flutti ég ræðu og gagnrýndi ýmislegt sem í frv. var í upphafi. Mörgu hefur verið breytt, annað hefur skýrst við umræðuna sem gerir það að verkum að ég er nokkuð sáttur við það frv. sem hér liggur fyrir. Ég vil því segja að lokum, virðulegi forseti, að ég ítreka þakkir til nefndarmanna allshn. sem ég held að hafi unnið mjög gott starf, og ítreka jafnframt að verið er að brjóta í blað, hér er verið að sporna við og tryggja friðhelgi einkalífs í þeirri öru tæknibyltingu sem nú ríður yfir heiminn og hefur stundum verið kölluð upplýsingabyltingin. Því er mjög mikilvægt að við slíkar breytingar í samfélagi okkar sé reynt að tryggja eins og kostur er að friðhelgi einkalífs og persónuvernd sé verndað eins og hægt er.