2000-05-10 02:21:25# 125. lþ. 111.21 fundur 485. mál: #A brunavarnir# (heildarlög) frv. 75/2000, Frsm. ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 125. lþ.

[26:21]

Frsm. umhvn. (Ólafur Örn Haraldsson):

Virðulegi forseti. Frv. sem hér liggur fyrir þingi að lokinni umfjöllun hv. umhvn. er heildarlöggjöf og endurskoðun á lögum um brunavarnir. Í frv. er gerð grein fyrir markmiðum frv., gildissviði og skilgreiningar koma þar glögglega fram. Tekið er á heildarskipulagi og stjórn brunamála og hvernig Brunamálaskóla og brunamálaráði sé fyrir komið og hvernig brunamál tengjast sveitarfélögunum og hvert valdsvið slökkviliðs sé og tengsl þess við sveitarstjórnir.

Umhvn. fékk til sín gesti og umsagnir og fjallaði um málið eftir því sem tök voru á og hefur lagt fram nokkrar brtt. í framhaldi af þeirri umfjöllun.

Í nefndaráliti er vikið að ýmsum nýmælum sem koma fram í frv., en þar er m.a gerð grein fyrir því að hlutverk Brunamálastofnunar og sveitarfélaga á sviði bruna- og mengunarvarna sé skýrt og lögð áhersla á að sveitarfélög auki samvinnu á sviði eldvarnaeftirlits og starfsemi slökkviliða og jafnframt er ákvæði um brunavarnaáætlanir og Brunamálaskóli er settur í lög.

Brunamálaskólinn kom til sérstakrar umræðu í nefndinni enda var allnokkuð að honum vikið bæði í máli gesta og í umsögnum. Ljóst er að Brunamálaskólinn þarf að starfa í nánum tengslum við þá framþróun sem er á sviði brunamála. Sömuleiðis þarf skólinn að vera í tengslum við slökkviliðin um land allt. Þess vegna leggur nefndin áherslu á að hvort tveggja gerist, að skólinn taki eðlilegum breytingum í samræmi við þær kröfur sem til hans eru gerðar --- það er augljóst að margvíslegar breytingar eru nauðsynlegar í skipulagi skólans --- og jafnframt að skólinn starfi áfram með sama hætti og hann hefur gert hvað varðar þjálfun úti um land allt. Með þessu er verið að víkja, þegar frsm. nefnir þetta, að umsögn og nefndaráliti umhvn. þar sem nefndin leggur áherslu á, eins og þar segir, með leyfi forseta:

,,Leggur hún áherslu á að því verði áfram sinnt með óbreyttu sniði.``

Þessi setning í nefndarálitinu vísar sérstaklega til þess að sama fyrirkomulagi verði haldið um að tæki, svo sem reykköfunargámur og önnur tæki, fari um landið og séu tiltæk fyrir slökkviliðin til æfinga. En þarna er ekki verið að segja að skólinn eigi að öllu leyti hvað stjórnsýslu og fyrirkomulag varðar að vera óbreyttur.

Ýmsar aðrar breytingar og áherslur hafa komið fram hjá umhvn. og er gerð grein fyrir þeim í brtt. og nefndaráliti.

Ég mæli með að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem nefndin hefur lagt fram.