2000-05-10 02:32:42# 125. lþ. 111.21 fundur 485. mál: #A brunavarnir# (heildarlög) frv. 75/2000, KPál
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 125. lþ.

[26:32]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Það mál sem hér er til umræðu er að sönnu merkilegt. Hér er verið að breyta starfsemi Brunamálastofnunar í nokkrum grundvallaratriðum auk þess sem ýmsu er breytt varðandi Brunamálaskólann.

Þær áhyggjur sem ég hef heyrt frá slökkviliðsmönnum vegna þessa frv. varða fyrst og fremst skólann sjálfan. Menn hafa áhyggjur af því, þá sérstaklega slökkviliðsmenn úti á landi, að farskóli Brunamálastofnunar verði ekki starfræktur eftir að þetta verður komið undir nýja stjórn og þar af leiðandi leggist niður sú mikla kynning og þjálfun sem slökkviliðsmenn úti á landi hafa fengið og menntun þeirra þurfi öll að færast til höfuðborgarsvæðisins.

Varðandi þetta mál þá hefur verið gengið úr skugga um það í nefndinni að ekki er ástæða fyrir slökkviliðsmenn að óttast þetta. Það er ekki fyrirhugað að breyta starfsemi skólans að neinu leyti. Þessi farskóli, gámar sem slökkvideild Brunamálastofnunar, skipulagsdeild, hafa umsjón með, eru fluttir út á land og notaðir sem æfingatæki og skólar. Eftir því sem brunamálastjóri og þeir sem starfrækja þennan skóla segja þá mun þetta ekki breytast. Ég er fyrir mitt leyti sáttur við þá niðurstöðu og tel að slökkviliðsmenn úti á landi geti einnig fagnað þessu frv.