2000-05-10 02:35:24# 125. lþ. 111.21 fundur 485. mál: #A brunavarnir# (heildarlög) frv. 75/2000, KolH
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 125. lþ.

[26:35]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil einungis segja varðandi þetta frv. til laga um brunavarnir að þetta er mikill lagabálkur. Það var synd hversu seint það kom fram og hversu lítill tími gafst til að vinna að því í nefnd. Til marks um það er það atriði sem hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi hér áðan varðandi 12. gr. Ég ætlaði að muna eftir því sjálf, herra forseti, að orða þetta: eldvarnaeftirlit sem væri heimilt skv. frv. að fela skoðunarstofum. Ég úttalaði mig um þetta í nefndinni, að þarna teldi ég ákveðna hættu á ferðinni og lýsi yfir ánægju minni með þá yfirlýsingu hv. formanns nefndarinnar sem hann gaf hér áðan um sameiginlegan skilning nefndarinnar, að þetta sé einungis heimildarákvæði en ekki stefnumarkandi ákvæði. Ég tel afar mikilvægt að það sé hér rammað frekar inn í umræðunni.

Að öðru leyti vil ég segja að umsagnir þær sem komu um frv. voru ansi flóknar. Það var erfitt að taka afstöðu til þeirra allra og mín von er sú, þar sem komið er nú að þinglokum, að ekki þurfi að koma til þess á næsta þingi að jafnmörg veigamikil frv. komi fram jafnseint á sviði umhverfismála og nú gerðist.