MBA-nám við Háskóla Íslands

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 10:31:01 (7335)

2000-05-10 10:31:01# 125. lþ. 112.91 fundur 512#B MBA-nám við Háskóla Íslands# (aths. um störf þingsins), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 125. lþ.

[10:31]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Í utandagskrárumræðum fyrr í vetur um MBA-nám, sem Háskóli Íslands fyrirhugaði að bjóða upp á við Endurmenntunarstofnun eða viðskiptadeild háskólans, kom fram að ekki var ljóst hvernig háskólinn ætlaði sér að leysa þá þverstæðu að hann má ekki taka skólagjöld og Endurmenntunarstofnunin má ekki gefa út háskólagráðu. Menntmrh. sagði af því tilefni:

,,Þarna er því viðfangsefni á ferðinni sem er nauðsynlegt að háskólinn skýri betur fyrir væntanlegum nemendum og einnig af þessu tilefni fyrir hv. alþm. og ráðuneytinu hvernig á að sameina þetta tvennt.``

Herra forseti. Nú berast af því fréttir að háskólinn telji sig búinn að leysa þverstæðuna, búinn að finna leið til að taka skólagjöld upp á 1,2 millj. kr. fyrir nám í viðskiptafræðum. Í bókun háskólaráðs frá 23. mars segir að verið sé að leggja lokahönd á tillögu að nýrri reglugerð fyrir Háskóla Íslands þar sem m.a. verði að finna ákvæði um endurmenntun á vegum háskóladeilda og gjaldtöku fyrir þjónustuna. Vísað er í það að háskólinn megi standa fyrir endurmenntun og skv. 18. gr. sé heimilt að innheimta þjónustugjöld fyrir.

Herra forseti. Ekki fer á milli mála að við á hv. Alþingi höfðum Endurmenntunarstofnun háskólans í huga þegar fjallað var um þetta ákvæði 18. gr. og jafnljóst að endanleg niðurstaða orðalagsins í greininni átti ekki að bjóða upp á gjaldtöku fyrir nám á vegum háskólans sjálfs. Þannig á augljóslega, herra forseti, að fara fram hjá lögunum um háskóla og vilja Alþingis í þessum efnum. Í ljósi þessa er nauðsynlegt að viðbrögð stjórnvalda og Alþingis komi fram á þessum vettvangi áður en þingið fer í leyfi. Mun ráðherra staðfesta þessa prófgráðu með hliðsjón af þeim reglum sem um námið munu gilda og hver verða viðbrögð fulltrúa ráðherra í háskólaráði í framhaldinu en eins og kunnugt er á ráðherrann nú tvo af tíu fulltrúum í háskólaráði þegar menn taka endanlega ákvörðun um málið af hálfu háskólans.

Herra forseti. Vilji Alþingis liggur skýr fyrir.