MBA-nám við Háskóla Íslands

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 10:35:04 (7337)

2000-05-10 10:35:04# 125. lþ. 112.91 fundur 512#B MBA-nám við Háskóla Íslands# (aths. um störf þingsins), ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 125. lþ.

[10:35]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Ljóst er að engin ákvörðun hefur verið tekin innan háskólans hvað þetta varðar. Ég tel hins vegar þau tíðindi sem berast af reglugerðarundirbúningi hjá háskólanum gefi fullt tilefni til að þetta mál sé rætt og í ljósi þess tók sá sem hér stendur þetta mál upp í menntmn. þingsins nú fyrir skömmu og óskaði eftir að það væri rætt þar. Kom þá fram eins og hér hefur einnig gert í dag að málið er ekki afgreitt. Stefna Alþingis liggur ljós fyrir, stefna stjórnarflokkanna um að taka ekki skólagjöld af námi á vegum háskólans.

Ég tel rétt að sú stefna sé áréttuð að þessu sinni og tek heils hugar undir að við leitum annarra lausna en þeirra að fara út í stórfelld skólagjöld. Sá sem hér stendur er tilbúinn ásamt ábyggilega fleiri mönnum að efla háskólann því að auðvitað eigum við ekki að svipta háskólann tekjumöguleikum heldur verðum við þá að koma til móts við hann með auknum fjárframlögum þannig að meistarapróf og meistaragráður geti orðið í háskólanum, ekki aðeins á vegum viðskiptafræðideildarinnar heldur einnig á vegum annarra deilda því að slæm er sú staða ef við verðum að sætta okkur við að ekki sé hægt að efna til meistaragráðu í háskólanumn öðruvísi en fara þá leið sem stefnir í eins og kemur fram í þeirri reglugerð sem nú er í undirbúningi.