MBA-nám við Háskóla Íslands

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 10:40:29 (7340)

2000-05-10 10:40:29# 125. lþ. 112.91 fundur 512#B MBA-nám við Háskóla Íslands# (aths. um störf þingsins), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 125. lþ.

[10:40]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Bókun háskólaráðs sem hæstv. ráðherra vitnaði í er frá 23. mars og ýmislegt hefur gerst síðan og menn þykjast orðið geta séð það með nokkurri vissu í hvað stefnir. Það er alveg ljóst að þó að segi í 18. gr. laga um Háskóla Íslands að háskólanum sé heimilt að taka gjöld fyrir endurmenntun fer það ekki á milli mála að menn höfðu Endurmenntunarstofnun háskólans í huga þegar fjallað var um þetta ákvæði á Alþingi. Það er alveg ljóst, herra forseti, að endanleg niðurstaða orðalagsins átti ekki að bjóða upp á gjaldtöku fyrir nám á vegum háskólans sjálfs. Þetta liggur alveg fyrir.

Það sem er að gerast er því augljóslega að verið er að búa til það sem hv. þm. kallaði hér áðan hjáleið fram hjá lögunum og ég endurtek spurningu mína til stjórnvalda: Ætla menn að leyfa slíkt? Ætla menn að sitja aðgerðalausir og láta það gerast að Háskóli Íslands í fjárkröggum sínum þurfi að finna slíkar hjáleiðir fram hjá lögunum og upp á hvað er þá verið að bjóða? Verður þá hægt héðan í frá að kalla nám í hvaða deild háskólans sem er endurmenntun ef deildin er svelt fjárhagslega? Er þetta sú framtíð sem við ætlum að bjóða íslenskri æsku í menntamálum?

Nei, herra forseti. Vilji Alþingis liggur fyrir. Hann liggur fyrir vegna þeirra laga sem eru tiltölulega ný, bæði um háskóla og sérlaga um Háskóla Íslands. Það hefur ekkert komið fram hér, hvorki í tillöguflutningi né í ummælum manna sem bendir til þess að meirihlutavilji sé á Alþingi fyrir því að breyta þeirri stefnu. Það er alveg ljóst.

Ef ráðherra ætlar ekki að grípa inn í atburðarásina er verið að brjóta í bága við stefnu Alþingis.