MBA-nám við Háskóla Íslands

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 10:42:28 (7341)

2000-05-10 10:42:28# 125. lþ. 112.91 fundur 512#B MBA-nám við Háskóla Íslands# (aths. um störf þingsins), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 125. lþ.

[10:42]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Mér finnst þetta alveg makalaus málflutningur um störf þingsins að vera að taka upp þetta mál um MBA-nám við Háskóla Íslands. Við höfum rætt þetta mál í vetur í utandagskrárumræðu. Við erum með nýsett lög um Háskóla Íslands þar sem sjálfstæði hans var aukið. Þetta mál er til umræðu þar innan dyra. Þar hafa menn möguleika til að koma skoðunum sínum á framfæri og ég mótmæli því harkalega að verið sé að bera Sjálfstfl. það á brýn að hann sé að reyna að smygla inn einhverjum skólagjöldum í Háskóla Íslands. Er ekki Háskóli Íslands sjálfstæð stofnun? Er það ekki háskólaráð sem er æðsti ákvörðunaraðili innan háskólans? Mér finnst þetta því dálítið einkennilegur málflutningur. Mér finnst hann dæma sig sjálfur og það er alveg ljóst að ekki er hægt að ræða þetta mál á þinginu meðan ekki liggja fyrir beinar tillögur og ákvarðanir innan háskólans.