MBA-nám við Háskóla Íslands

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 10:43:47 (7342)

2000-05-10 10:43:47# 125. lþ. 112.91 fundur 512#B MBA-nám við Háskóla Íslands# (aths. um störf þingsins), ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 125. lþ.

[10:43]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Mér hafa borist drög nr. 3 að undirbúningi þeirrar reglugerðar sem hér hefur verið vitnað til og vil ég leyfa mér að vitna í þá heimild. Þar segir í 4. tölul. 14. gr., með leyfi forseta:

,,Heimilt er deild að ákveða að endurmenntunarnámi á vegum hennar ljúki með sérstakri prófgráðu, enda uppfylli námið almennar kröfur háskólanáms.``

Hér er verið að nýta endurmenntunardeildina til gjaldtöku og um leið að opna prófgráðuheimild fyrir deildina. Ég sé ekki annað en hér sé í undirbúningi að ganga á svig við stefnu Alþingis. Það var undir þessum formerkjum sem ég tók málið upp í menntmn. Ég þakka formanni nefndarinnar fyrir að hafa rætt það mál málefnalega og ég sætti mig fyllilega við þau svör sem formaðurinn setti þar fram og ég tek einnig undir þau sjónarmið sem hafa komið fram. Þetta er ekki ákvörðun hjá háskólanum. Við eigum hins vegar að koma myndarlega fram við háskólann og láta það vera eina af styrkustu stoðum okkar í Alþingi að efla háskólamenntunina með því að gera háskólanum kleift að hefja meistaranám í viðskiptafræðum með auknum fjárveitingum til skólans þegar fram í sækir.