Þjóðlendur

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 10:56:03 (7352)

2000-05-10 10:56:03# 125. lþ. 112.1 fundur 321. mál: #A þjóðlendur# (kostnaður af hagsmunagæslu, málsmeðferð) frv. 65/2000, SighB (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 125. lþ.

[10:56]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Í rúma þrjá áratugi börðust þingmenn Alþb. og Alþfl. fyrir því að leidd yrðu í lög ákvæði um þjóðlendur. Ákvæði um að allt það land og öll þau landgæði sem enginn einstaklingur gæti sannað eignarhald sitt á yrði lýst þjóðlendur eða sameign þjóðarinnar. Frv. sem hér um ræðir og lögin sem þá varða eru til að framkvæma þessa stefnu. Sú breyting sem nú er gerð er gerð til þess að auðvelda þeim sem telja sig eiga eignarhald á landi eða landgæðum að bera fram mál sitt og það er jákvætt. Tilgangurinn er ekki sá og hefur aldrei verið sá að taka neitt af neinum eða svipta neinn eignarrétti sem hann á sannanlega. Tilgangurinn er hins vegar sá að koma í veg fyrir að einstaklingar geti kastað eign sinni á land og landgæði sem þeir eiga ekki.

Herra forseti. Ég fagnaði á sínum tíma því að áratugagamalt baráttumál A-flokkanna skyldi ná fram að ganga og mig undrar sú afstaða sem nú liggur fyrir af hálfu nokkurra þingmanna. Ég greiði að sjálfsögðu atkvæði með þessu.