Fyrirspurnir til forsætisráðherra

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 12:18:04 (7378)

2000-05-10 12:18:04# 125. lþ. 114.91 fundur 523#B fyrirspurnir til forsætisráðherra# (aths. um störf þingsins), MF
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[12:18]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þá gagnrýni sem fram kom hjá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur en vekja einnig athygli á því að hér er að hefjast síðasti fyrirspurnatími þingsins. Við í þingflokki Samfylkingarinnar höfum lagt fram fyrirspurnir og óskað eftir skriflegu svari. Það eru mál sem voru lögð fram fljótlega á haustþingi og fljótlega eftir áramót. Fyrirspurnir sem enn vantar skrifleg svör við eru 23 miðað við stöðuna 5. maí. Eitthvað hefur borist af svörum síðan en af þessum 23 fyrirspurnum er þingflokkur Samfylkingarinar með níu. En það sem er sýnu alvarlegra, virðulegi forseti, er það að skýrslubeiðnir sem liggja fyrir og hefur ekki verið svarað eru sjö, þar af er Samfylkingin með fimm og ein af þeim er lögð fram á fyrstu vikum þingsins, úttekt á stjórnunar- og eignatengslum milli fyrirtækja á íslenskum markaði. Þetta er skýrslubeiðni sem við leggjum afar mikla áherslu á og hún hefur ekki komið enn.

Við gerðum okkur grein fyrir því að þarna væri um stórt verkefni að ræða og þess vegna töluðum við um að það mætti taka út ákveðna þætti í skýrslunni og skila þá a.m.k. áfangaskýrslu. Það er algerlega óþolandi að ekki sé farið eftir þeim frestum sem gefnir eru hvað varðar skrifleg svör við fyrirspurnum og skýrslubeiðnum.