Fyrirspurnir til forsætisráðherra

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 12:20:25 (7380)

2000-05-10 12:20:25# 125. lþ. 114.91 fundur 523#B fyrirspurnir til forsætisráðherra# (aths. um störf þingsins), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[12:20]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég undrast að hv. þm. Margrét Frímannsdóttir skuli koma upp til að gera athugasemdir vegna skýrslubeiðni sem kom frá Samfylkingunni á fyrstu dögum þingsins og varðar eignatengsl og stjórnunartengsl í íslensku atvinnulífi vegna þess að ég hef gefið skýringar á hv. Alþingi hvers vegna þetta er svona og hvernig ég hyggst bæta úr og verða við þessari beiðni. Þetta er það kostnaðarsamt að það gat ekki orðið úr því á þessu ári að ljúka skýrslugerðinni og vinnunni. Hins vegar hef ég líka látið það koma fram að ég mun sjá til þess að vinnan hefjist í ár með því að leggja fram fjármagn af ráðstöfunarlið mínum og Samkeppnisstofnun fær þetta verkefni. Ég tel að málið sé í viðunandi farvegi og hef þegar gert grein fyrir því þannig að mér finnst að hv. þm. hefði ekki þurft að koma upp núna á þessum degi til þess að gera þessar athugasemdir.