Fyrirspurnir til forsætisráðherra

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 12:29:10 (7385)

2000-05-10 12:29:10# 125. lþ. 114.91 fundur 523#B fyrirspurnir til forsætisráðherra# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[12:29]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta er alveg dæmalaus framkoma af hálfu hæstv. forsrh. og ég hlýt að taka það fram vegna orða forseta um að forsrh. hafi þurft að víkja af fundi að ég fékk upplýsingar um það fremur snemma á þeim fundi sem hér hófst kl. hálfellefu að hæstv. forsrh. mundi ekki svara fyrirspurnum okkar í dag. Ég tek því illa en ég er ekkert sérlega undrandi því að framkoma forsrh. við þingið er yfirleitt ekki á mjög málefnalegum nótum.

Herra forseti. Ég hefði kosið að forseti Alþingis hefði haft samráð um það við okkur þingflokksformenn að taka atkvæðagreiðslur í tæpa tvo tíma fram fyrir fyrirspurnirnar úr því að það lá fyrir að forsrh. gat ekki svarað fyrstu þremur fyrirspurnunum og að verið væri að taka atkvæðagreiðslurnar á kostnað fyrirspurnanna. Mér finnst að það hefði verið sanngjarnt, annað eins samráð og ég ásamt öðrum þingflokksformönnum höfum haft við forsetann að þannig hefði verið staðið að málum. Ég mun að sjálfsögðu taka þetta upp á fundi með forseta núna kl. eitt og þessu máli er ekki lokið í vor af minni hálfu. Ég mun ganga eftir þessum einföldu svörum við forsrh. og koma þeim svörum til skila. Ég mun skoða hvernig það verður gert og ég hlýt að benda hæstv. forseta á að það er ekki mjög klókt í dagskrá eins og þessari að byrja á því að taka mál út af dagskrá ef unnt hefði verið að fá forsrh. hér síðar.