Fyrirvari Íslands við Atlantshafssamninginn

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 12:34:10 (7389)

2000-05-10 12:34:10# 125. lþ. 114.4 fundur 632. mál: #A fyrirvari Íslands við Atlantshafssamninginn# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[12:34]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Á útmánuðum árið 1999 gerðust atburðir í íslenskum stjórnmálum eða utanríkisstjórnmálum sem ekki var kannski mikill gaumur gefinn. Þá gerðist það nefnilega í fyrsta sinn að Ísland tók þátt í hernaði gegn annarri þjóð í þeim skilningi að eiga aðild að ákvörðun Atlantshafsbandalagsins, NATO, um að hefja loftárásir á Júgóslavíu. Þessi atburður er í rauninni þeim mun meiri tímamót í ljósi þess að þegar Ísland gerðist aðili að Atlantshafsbandalaginu, NATO, var skýrt tekið fram af Íslands hálfu og það má kalla það fyrirvara, enda oft vitnað til hans sem slíks, að einmitt þetta mundi Ísland aldrei gera. Það tengdist þeim vilja ráðamanna, Íslendinga, að við yrðum áfram, þrátt fyrir aðild að hernaðarbandalaginu NATO, herlaus þjóð og mundum aldrei fara með vopnum eða ófriði gegn annarri þjóð.

Þessi fyrirvari kom fram á margvíslegan hátt í tengslum við ákvarðanatökuna um aðild okkar að NATO. Hann kemur fram í fyrsta lagi í skýrslu þriggja ráðherra sem fóru til Washington í aðdraganda þeirrar ákvörðunar í byrjun árs 1949. Sá fyrirvari er rakinn í greinargerð með till. til þál. um þátttöku Íslands í Norður-Atlantshafssamningnum og ég hygg að sá fyrirvari hafi einnig komið fram í ræðu eða jafnvel ræðum, sem m.a. hæstv. þáv. utanrrh., Bjarni Benediktsson, flutti í tengslum við undirritun samningsins og e.t.v. í fleiri tilvikum. Fyrirvarinn er svohljóðandi eins og hann kemur fyrir í skýrslu ráðherranna þriggja sem til Washington fóru, þeirra Bjarna Benediktssonar, Emils Jónssonar og Eysteins Jónssonar:

,,Við tókum fram`` --- eins og segir í skýrslunni --- ,,að Ísland hvorki hefði né gæti haft eigin her og mundi þess vegna hvorki geta né vilja fara með hernaði gegn nokkurri þjóð jafnvel þó á það yrði ráðist.``

Nú kom að vísu ekki til í þessu tilviki að sambandsríkið Júgóslavía réðist á Ísland en engu að síður gerðist hið gagnstæða, að Ísland tók ekki í efnislegum skilningi heldur pólitískum, siðferðislegum og þjóðréttarlegum ábyrgð á því að farið var með vopnum gegn Júgóslavíu. Reyndar var svo í framhaldinu, í fyrirvaranum, þau frægu ákvæði sem mjög urðu tilefni deilna á Íslandi, herra forseti, að ekki kæmi til mála að hér yrði her á friðartímum. Ég hef því leyft mér að spyrja hæstv. utanrrh.:

Ber að líta svo á að fyrirvari Íslands við Atlantshafssamninginn frá 1949, þess efnis að Íslendingar gætu ekki sem vopnlaus þjóð sagt annarri þjóð stríð á hendur, sé úr gildi fallinn í ljósi aðildar Íslands að hernaði Atlantshafsbandalagsins gegn Júgóslavíu árið 1999?