Kærumál vegna ólöglegrar sölu á tóbaki

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 12:51:05 (7395)

2000-05-10 12:51:05# 125. lþ. 114.5 fundur 495. mál: #A kærumál vegna ólöglegrar sölu á tóbaki# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[12:51]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. svörin. Það var eins og mig grunaði og fram hafði komið, að eftirlitið er brotakennt. Þessi mál eru sjaldan kærð og enn sjaldnar að sektum sé beitt. Því er mjög mikilvægt að koma böndum yfir sölustaði tóbaks og skilyrða þá með leyfisveitingu. Tóbaksvarnanefnd tekur undir þá tillögu í umsögn sinni um þáltill. sem ég nefndi áðan, að hver sá sem reki smásöluverslun tóbaks skuli hafa til þess sérstakt leyfi sýslumanns úr viðkomandi umdæmi. Tóbaksvarnanefnd bendir á að viðurlög þurfi að vera við brotum, sektir frá 50 og upp í 150 þús. kr. og hærri við ítrekuð brot. Það er tekið undir að hver sem rekur smásöluverslun skuli hafa til þess sérstakt söluleyfi, að beita skuli sektum og herða þurfi eftirlitið.

Ég fagna því að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og ég vona á fleiri stöðum hafi tekið höndum saman við tóbaksvarnanefnd og Íþrótta- og tómstundaráð og reyni að sinna eftirlitinu. Tölur um sölu tóbaks til barna og ungmenna sýna að undir 18 ára aldri kaupa þau langflest eigið tóbak án þess að söluaðilar fái nokkrar aðvaranir eða sektir fyrir.

Ég þakka undirtektirnar og hvet hæstv. dómsmrh. til að beita sér í þessu máli og gera það sem hann getur til að koma einhverjum böndum á vandann.