Reglur um öryggisbúnað í bifreiðum fatlaðra

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 12:58:48 (7398)

2000-05-10 12:58:48# 125. lþ. 114.6 fundur 631. mál: #A reglur um öryggisbúnað í bifreiðum fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[12:58]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svörin. Það gleður mig að í vændum séu ákvæði í reglugerð um gerð og búnað ökutækja sem taki sérstaklega á þessu vandamáli og fylli upp í þá eyðu sem þar hefur sannanlega verið. Megintilefni fsp. minnar er að það hefur verið mjög bagalegt og í raun með öllu fráleitt, miðað við þær kröfur sem annars eru gerðar til öryggis í umferðinni, að engin ákvæði hafi verið í reglugerð um t.d. hvernig hjólastólar væru festir í bifreiðum sérútbúnum til flutnings fatlaðra, um öryggisbelti og annað sem varðar öryggismál við slíkar aðstæður.

Ljóst má vera að tímabært er að slíkar reglur líti dagsins ljós og ég þigg með þökkum boð hæstv. ráðherra að fá að líta á þau drög sem fyrir liggja.

Varðandi hitt atriðið sem ég spurði um, frekari reglur um öryggismál í bifreiðum sérútbúnum fyrir fatlaða, er það vel ef talið er að núgildandi ákvæði séu fullnægjandi. Ég hafði talið eins og margir fleiri að vegna breyttrar tækni og mikilla nýjunga á þessu sviði þar sem m.a. rafeindatækni gerir ýmislegt mögulegt sem alls ekki var hugsanlegt áður þá gæti verið þörf á ítarlegri ákvæðum og/eða því sem ég hefði að mörgu leyti talið heppilegra að stefna að sem framtíðarmarkmiði, að í framtíðinni yrði til sérstök reglugerð sem geymdi öll þessi ákvæði, hliðarreglugerð við hina almennu reglugerð um gerð og búnað ökutækja sem að sjálfsögðu lýtur að öllum almennum aðstæðum.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og það gleður mig að þessi mál standi til nokkurra bóta.