Hefting sandfoks

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 13:01:12 (7399)

2000-05-10 13:01:12# 125. lþ. 114.8 fundur 602. mál: #A hefting sandfoks# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[13:01]

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Ég beini fsp. til hæstv. umhvrh. Á þessu þingi hafa verið miklar umræður um umhverfismál og er það í rauninni vel og í takt við tímann. Oft hafa menn reyndar farið offari í umræðunni og margir hafa barist gegn því að sökkva landi, t.d. í tengslum við orkuöflun. Að mínu mati getur verið umhverfisvænt að sökkva landi í ákveðnum tilfellum. Þetta á við þegar yfirborð vatns er aukið í því skyni að koma í veg fyrir landfok og jarðvegsfok.

Allt of lítil umræða hefur orðið um þessi mál og þessa hlið umhverfismála. Á sama hátt er að mínu mati allt of lítil umræða um fyrirhleðslumál við árfarvegi og fljót til þess að koma í veg fyrir landrof, en oft brjóta ár og fljót niður gróið land og það er í raun og veru skylda okkar stjórnmálamanna að veita meira fjármagn til fyrirhleðslumála en gert er. Ég beini fsp. minni, eins og ég sagði í upphafi, til hæstv. umhvrh. og fsp. er í tveimur liðum.

1. Hver er reynslan af hækkun Sandvatns á Haukadalsheiði í heftingu sandfoks?

2. Ef reynslan er jákvæð, hvar kemur víðar til greina að ráðast í framkvæmdir sem þessar til að hefta sandfok og jarðvegsfok?