Hagavatn á Biskupstungnaafrétti

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 13:08:30 (7402)

2000-05-10 13:08:30# 125. lþ. 114.9 fundur 603. mál: #A Hagavatn á Biskupstungnaafrétti# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[13:08]

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Enn beini ég fsp. til hæstv. umhvrh. Hún er raunar í beinu framhaldi af fyrri fsp. minni og hæstv. ráðherra kom örlítið inn á þau mál er hún svaraði fyrri fsp. En ég ætla að halda mig við þær slóðir þar sem ég hef verið.

Á Haukadalsheiði í Biskupstungum er vatn sem heitir Hagavatn. Árið 1939 var yfirborð þess vatns hækkað með því að þrengja úrrennsli vatnsins til þess að draga úr mold- og sandfoki. Aðgerð þessi var mjög skynsamleg og tókst í alla staði afar vel. Gríðarlegt mold- og sandfok er á heiðinni þó Landgræðsla ríkisins hafi barist mjög hetjulega og af miklum metnaði á þessum slóðum um langt árabil.

Fyrir nokkrum árum stóð til að þrengja úrrennsli vatnsins á nýjan leik en svo óheppilega tókst til að krafist var að framkvæmdin færi í mat á umhverfisáhrifum. Framkvæmdir á þessum slóðum hafa því dregist úr hófi fram þó svo að allir sem ég hef rætt þessi mál við séu þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að auka yfirborð vatnsins til þess að sökkva leirkenndu landi og koma í veg fyrir landfok. Þetta er nauðsynlegt til þess að Landgræðslan og áhugamenn um uppgræðslu í Árnessýslu geti haldið áfram landbótastarfi á þessu svæði því framkvæmd sem þessi er mikið landbótaverkefni.

Ég beini því fsp. minni á þskj. 917 til hæstv. umhvrh.:

1. Hvað líður rannsóknum á umhverfi Hagavatns á afrétti Biskupstungna?

2. Hvenær telur ráðherra að hægt verði að leggja fram nýtt umhverfismat þannig að hefja megi framkvæmdir við hækkun Hagavatns til þess að draga úr uppblæstri á Biskupstungnaafrétti?