Hagavatn á Biskupstungnaafrétti

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 13:14:29 (7405)

2000-05-10 13:14:29# 125. lþ. 114.9 fundur 603. mál: #A Hagavatn á Biskupstungnaafrétti# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[13:14]

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir þessi svör og hv. þm. Kristjáni Pálssyni fyrir áhuga á málinu. Eins og fram kom í þeim ræðum sem fluttar voru um þetta mál eru flestir mjög sammála um mikilvægi þess að gera það sem mögulegt er til þess að koma í veg fyrir landfok.

Ég játa að mér þykir slæmt að ekki skuli vera hægt að hefja framkvæmdir nú í sumar. Ég hafði satt að segja vonast til þess. En það kom fram í svari hæstv. ráðherra að niðurstöður vegna umhverfismatsins liggja ekki fyrir en fyrr en um næstu áramót og þetta þarf að fara í alveg ákveðið ferli. Því vonast ég til þess að það ferli gangi hratt fyrir sig. Ég treysti umhvrh. mjög vel til þess að halda vel á þessu máli og láta það ganga svo hratt fyrir sig sem mögulegt er því hér er um gríðarlegt hagsmunamál að ræða fyrir íbúa uppsveita Árnessýslu og reyndar landsmenn alla.