Geysissvæðið í Biskupstungum

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 13:30:04 (7412)

2000-05-10 13:30:04# 125. lþ. 114.10 fundur 478. mál: #A Geysissvæðið í Biskupstungum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[13:30]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Hér er alls ekki um froðusnakk að ræða og ég vil bara vísa því á bug sem hér kom fram. Umhvrn. og fleiri aðilar eru að sýna ábyrgð. Okkur dettur ekki í hug að fara að framkalla Geysisgos án þess að vera búin að rannsaka tengsl hveranna. Ætlum við að fórna Strokki, sem er að gjósa mjög ört og er mjög mikilvægur fyrir ferðaþjónustuna, fyrir það hugsanlega fá Geysisgos? Ég efast um að það sé það sem hv. þm. vilja. Og það væri ágætt að fá að heyra það við tækifæri hvort hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson vill fórna Strokki fyrir örfá Geysisgos. Að sjálfsögðu væri best að geta verið með bæði Geysisgos og gos í Strokki, en til þess að gera það þurfum við að rannsaka hitakerfin fyrst og það er það sem á að gera í sumar. Hefja á rannsóknir á tengslum þessara hitakerfa og framkalla gos í kringum 8. júní. Ef fjármagn fæst á að fara í rannsóknir einnig árið eftir. Ég skil því rannsóknaplanið svo að niðurstaða fáist í lok árs 2001, þannig að árið 2002 vitum við hvort við getum látið Geysi gjósa ört án þess að fórna Strokki. Ég held að það sé hagsmunum ferðaþjónustunnar fyrir bestu að við gerum ekkert sem gæti hugsanlega eyðilagt gosin í Strokki vegna þess að hann gýs það ört og fólk hefur þolinmæði til þess að bíða. Það þarf lítið að bíða milli gosa og getur skoðað fallegu gosin í Strokki, en að sjálfsgöðu vildi ég gjarnan geta farið út í fjölmörg Geysisgos, en fyrst þurfum við að kanna hvernig hitakerfi hveranna tengjast til þess að við sköðum ekki svæðið óvart vegna þess að við vissum ekki betur.