Verndun Þjórsárvera við Hofsjökul

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 13:32:33 (7413)

2000-05-10 13:32:33# 125. lþ. 114.11 fundur 604. mál: #A verndun Þjórsárvera við Hofsjökul# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[13:32]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Með heimild í lögum nr. 47/1971 voru Þjórsárver við Hofsjökul friðlýst. Sú friðlýsing var í raun í skiptum fyrir Eyjabakkana sem áttu að fara undir uppistöðulón Fljótsdalsvirkjunar. Ég hef verið stuðningsmaður þess að breyta þeim áformum svo lón verði óþarft, en Jökulsá í Fljótsdal virkjuð neðan Eyjabakkafoss, en Eyjabakkar eru mikilvægasta griðland heiðagæsa í fjaðrafelli eins og þekkt er.

Þjórsárver eru aftur á móti mikilvægasta varpland heiðagæsa í heiminum og einstakt sem slíkt líkt og einstakt votlendi í kvíslum Þjórsár. Þrátt fyrir að ákvörðun um friðland við Þjórsá sé um tuttugu ára gömul, hefur ekki verið gengið frá endanlegum mörkum þess. Verulegar áhyggjur eru hjá umhverfisverndarmönnum um framtíð Þjórsárveranna því virkjunarframkvæmdir eru farnar að ganga nærri þeim og umhverfi þeirra.

Kvíslaveita 5 gekk t.d. töluvert á land austan friðlýsta svæðisins og hugmyndir um Kvíslaveitu 6 munu jafnvel ganga enn lengra en Kvíslaveita 5. Vatn mun fara af ákveðnum svæðum og þau þorna upp. Norðlingaöldulón mun einnig skerða land við Þjórsárverin.

Ég vil taka fram, herra forseti, að í sjálfu sér er ekkert upp á Landsvirkjun að klaga í þessum efnum. Þau mál hafa verið gerð í góðu samkomulagi og faglega unnin og í þeim anda sem reglugerðin og samningurinn um verin gerðu ráð fyrir. Eigi að síður er full ástæða til að kanna frekar reynsluna af áhrifum virkjana á þessu svæði fram að þessu og þeirra áforma sem fyrirhuguð eru í virkjun Þjórsár fyrir ofan 580 m hæð.

Því er ástæða til þess, herra forseti, að ljúka við að ákvarða endanleg mörk Þjórsárveranna svo að alveg ljóst sé hvað megi ganga langt. Upphaflega var gengið út frá því að þessi mörk lægju fyrir miklu fyrr en raun ber vitni.

Þess vegna hef ég borið fram, herra forseti, eftirfarandi fsp. til hæstv. umhvrh.:

1. Hvað líður ákvörðun um mörk Þjórsárvera við Hofsjökul?

2. Liggur fyrir bráðabirgðaniðurstaða um mörk Þjórsárvera eftir samkomulag árið 1981 um friðun þeirra?

3. Er ágreiningur um virkjanir í grennd við Þjórsárver sem gætu skaðað svæðið?