Verndun Þjórsárvera við Hofsjökul

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 13:45:07 (7419)

2000-05-10 13:45:07# 125. lþ. 114.11 fundur 604. mál: #A verndun Þjórsárvera við Hofsjökul# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[13:45]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Við þetta tækifæri hefur verið beint til mín spurningu um Þjórsárveranefnd frá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki upplýsingar fyrirliggjandi um það hvort þessi nefnd er starfandi og hvenær hún hittist síðast eða neitt þannig.

Samkvæmt upplýsingum mínum frá Náttúruvernd ríkisins, en þeir hafa nýlega hitt fulltrúa Landsvirkjunar vegna þessara mála, er verið að taka saman skýrslu um hugsanleg umhverfisáhrif af þessum hugsanlegu framkvæmdum. Hún er ekki komin fram og í kjölfarið munu menn íhuga hvort þeir ætli sér að fara með málið áfram í mat á umhverfisáhrifum. Ég vil draga það sérstaklega fram að Náttúruvernd ríkisins hefur ekki fyrir sitt leyti heimilað neinar undanþágur vegna þeirra orða sem fram komu hjá hv. þm. Kristjáni Pálssyni.

En ég tek undir það og að sjálfsögðu er það þannig varðandi sjónarmið hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að óhjákvæmilegt er að menn skoði þessi mál alvarlega á næstunni. Ekki verður undan því komist vegna þess að Landsvirkjun hefur verið að taka saman skýrslu og er að því um áhrif af þessum hugsanlegu framkvæmdum.

Ég vil ítreka að ekki hefur verið ákveðið að fara í neinar framkvæmdir á þessu svæði.