Notkun íslenskra veðurhugtaka

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 13:59:05 (7425)

2000-05-10 13:59:05# 125. lþ. 114.12 fundur 615. mál: #A notkun íslenskra veðurhugtaka# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[13:59]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér finnst vera gert nokkuð mikið mál af ekki mjög stóru tilefni. Ég held að þeir sem vildu að Alþingi mælti fyrir um það að hin gömlu veðurheiti yrðu notuð verði einfaldlega að sætta sig við að sú tillaga var felld og verður ekki flutt aftur á þessu þingi. Menn geta endurflutt hana á nýju þingi og látið þá reyna á stuðning við hana.

Mér finnst of langt gengið að draga menn í dilka eftir afstöðu í þessu máli sem stuðningsmenn eða unnendur íslensks máls annars vegar og einhvers annars hins vegar. Þar finnst mér farið offari eins og hér var gert af hálfu hv. þm. Kristjáns Pálssonar og jafnvel látið að liggja af hálfu hæstv. forseta, 1. þm. Norðul. e.

Ég segi fyrir mitt leyti að ég vildi mjög gjarnan að hin gömlu veðurheiti héldust lifandi með þjóðinni í þeim skilningi að menn skildu þau og hefðu skýra tilfinningu fyrir því hvað þau merktu. En ég leyfi mér að efa að það verði tryggt með tilskipunum frá Alþingi. Ég held hins vegar að það væri tilraunarinnar virði að þeir sem annast framkvæmd þessara mála reyndu að laga hina nýju mælieiningu að þessum veðurheitum og nota þau í bland þannig að þau yfirfærðust smátt og smátt á hina nýju merkingu. Ég held að það hafi verið rétt ákvörðun á sínum tíma að taka upp metra í staðinn fyrir fet, faðma, álnir eða þumlunga. Ég held sömuleiðis að það sé rétt ákvörðun að taka upp mælieininguna metra á sekúndu fyrir vindstyrk en það ætti ekki að þurfa að koma í veg fyrir að gömlu veðurheitin í yfirfærðri merkingu héldust lifandi.