Málefni ungra afbrotamanna

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 14:17:25 (7432)

2000-05-10 14:17:25# 125. lþ. 114.13 fundur 436. mál: #A málefni ungra afbrotamanna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[14:17]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það samkomulag sem Fangelsismálastofnun ríkisins og Barnaverndarstofa gerðu með sér er mjög merkilegt og mjög gagnlegt. Ég er sammála hv. fyrirspyrjanda um að veita þarf smærri sveitarfélögunum sérstaka athygli í þessu sambandi. Við erum að vinna að því að stækka starfssvæði barnaverndarnefndanna þannig að samvinna milli minni sveitarfélaganna komi til og það fólk og sértæk úrræði séu til staðar þar sem á þarf að halda. Í frv. til nýrra félagsþjónustulaga er einmitt tekið sérstaklega á þessu atriði.

Stóraukið fjármagn hefur verið sett í baráttuna gegn eiturlyfjum og á milli 400--500 millj. kr. til viðbótar hafa gengið til verkefna á sviði félmrn. og heilbrrn. síðan um síðustu kosningar.

Einnig er rétt að halda því til haga að varðandi aldursskiptingu dómþola í afbrotamálum, þá hef ég aflað mér upplýsinga frá dómsmrn. Það er einn 17 ára sem afplánar dóm hjá Barnaverndarstofu, einn 18 ára afplánar dóm í Hegningarhúsinu, einn 19 ára afplánar á Vogi, þ.e. ekki eru komnar upplýsingar um brotið og þrír 20 ára afplána refsingu, þar af tveir á Litla-Hrauni og einn á sjúkrahúsi fyrir meiri háttar líkamsárás.

Það er kannski rétt að halda því til haga af því að ég spurði líka um það að í fangelsum landsins eru núna laus pláss fyrir 39.