Aðild að verkefninu Maður - nýting - náttúra

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 14:23:42 (7435)

2000-05-10 14:23:42# 125. lþ. 114.14 fundur 444. mál: #A aðild að verkefninu Maður - nýting - náttúra# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[14:23]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Vegna þessarar fyrirspurnar vil ég taka fram að ég er sammála hv. þm. um að óeðlilegt sé að landbrn. eða landbúnaðurinn eigi ekki fulltrúa í stórnefndinni sem fjallar um þessi mál og þau verkefni sem þar eru því að sannleikurinn er sá að landbúnaðurinn er stærsti landnýtandi landsins og hefur þar mikla ábyrgð og hagsmuni eins og þekkt er.

Ljóst er að virkjanlegt afl felst að stórum hluta í vatnsorku sem hlýtur að hafa áhrif á lífríki viðkomandi vatnakerfa og þar með á fiskstofna og veiðihlunnindi. Þekkt er hversu illa hefur farið á sumum svæðum, ég nefni Þingvallavatn og Sogið, þar voru gerð mistök. Því er öllum ljóst að mikið hagsmunamál er að ganga varlega um og gæta að þessum miklu hlunnindum. Það eru 1.200--1.400 bújarðir á Íslandi sem eiga mikla hagsmuni í veiðihlunnindum sem þjóðin vill að varðveitt séu og er mikil auðlind þegar við horfum til framtíðarinnar. Ég hef því barist hart fyrir því að reyna að fá hlut landbúnaðarins inn í stóru nefndina og tel það mjög mikilvægt, margræddi það við ráðherra um hvað það væri mikilvægt, því að saga landnýtingar og landgæða hvort sem átt er við land eða vötn ber það með sér að sjálfbær þróun er því aðeins möguleg að aldrei sé gengið of nærri landinu sem auðlind. Það er skylda þess stjórnvalds sem með auðlindir fer að koma í hvívetna að þegar um nýtingu landgæða er fjallað. Því hef ég ekki bara talið æskilegt heldur mikilvægt að landbúnaðurinn og landbrn. kæmi með mann inn í aðalnefndina. Þetta hef ég margrætt við fyrrv. og núv. iðnrh.

Nú hefur það gerst að sæti losnar í nefndinni og hefur iðnrh. tjáð mér að hún vilji taka tillit til þeirra sjónarmiða og tilnefna mann í staðinn í nefndina sem geti haldið utan um þessi sjónarmið og sátt væri á milli okkar um. Mér finnst því að það mál hvað stóru nefndina varðar sé að færast í höfn. Síðan eru fjórar undirnefndir og munu stofnanir landbúnaðarins taka þátt í störfum þeirra sem ég tel einnig mjög mikilvægt að eigi sér stað.

Hv. þm. spyr enn fremur um peningahlið málsins. Um hana get ég lítið tjáð mig. Ég hygg að verja eigi um 100 millj. kr. til rannsókna. Ég vona auðvitað að hlutur landbúnaðarins í þeim rannsóknum verði mikilvægur og þær undirstofnanir sem landbrn. hefur fái þar fjármagn til mikilvægra rannsókna því þar eru víða mjög brýn verkefni sem bíða.

Þetta er það svar sem ég vildi koma með og þakka hv. þm. fyrir fyrirspurn hans.