Aðild að verkefninu Maður - nýting - náttúra

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 14:27:19 (7436)

2000-05-10 14:27:19# 125. lþ. 114.14 fundur 444. mál: #A aðild að verkefninu Maður - nýting - náttúra# fsp. (til munnl.) frá landbrh., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[14:27]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Varðandi þessa fyrirspurn er rétt að taka fram að sú verkefnisstjórn sem er skipuð vegna rammaáætlunarinnar Maður -- nýting -- náttúra er einhvers konar arfur sem núv. ráðherrar hafa fengið frá fyrrv. ráðherrum. Búið var að skipa þá verkefnisstjórn áður en við komum að þessu máli.

En mér er engin launung á því að mikill þrýstingur hefur verið á að fá fleiri menn í nefndina. En menn hafa ekki viljað stækka hana þar sem þá verði endalaust hægt að bæta við og einhvern tíma verður maður að stoppa. Sú er hér stendur veit að það er laust sæti og við höfum knúið svolítið á með það sjónarmið að æskilegt væri að fá í nefndina fulltrúa frá samvinnunefndinni eða frá svæðisskipulagsnefndinni um miðhálendið. En ég heyri rök og veit af rökum hæstv. landbrh. og skil þau. Það má því vera, og ég teldi það vera afar góða lausn ef nýr fulltrúi fengist sem sameinaði sjónarmiðin frá landbrn., frá hæstv. landbrh., og frá svæðisskipulagsnefnd miðhálendisins.