Framtíð sjúkraflugs

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 14:32:39 (7439)

2000-05-10 14:32:39# 125. lþ. 114.18 fundur 515. mál: #A framtíð sjúkraflugs# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[14:32]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Herra forseti. Fyrir allnokkru þegar okkur fóru að berast fréttir af miklum erfiðleikum þeirra sem stunda innanlandsflug, sérstaklega litlu félaganna sem um leið hafa þjónað sjúkrafluginu, þegar þetta var allt saman að detta upp fyrir, fyrir eins og einum mánuði síðan, þá lagði ég fram þessa fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. um framtíð sjúkraflugs á Íslandi. Ég gerði það m.a., eins og ég sagði, út af þessum erfiðleikum í innanlandsflugi og af því að mörg af þessum litlu félögum sem voru að hætta farþegaflugi og þjónuðu líka sjúkrafluginu voru þá um leið að selja og jafnvel afhenda margar af þeim vélum sem þeir hafa notað í sjúkraflug hér á landi undanfarið.

Þetta vildi ég gera líka vegna þess að ég sá þessa miklu og fallegu skýrslu sem unnin var af Verk- og kerfisfræðistofunni vorið 1999 um úttekt á sjúkraflugi á Íslandi og þær tillögur sem þar komu fram þar sem m.a. stóð að stefnt skyldi að því að útboð á sjúkraflugi færi fram á árinu 1999 og að nýir samningar tækju gildi 1. janúar árið 2000 og ekkert var farið að gerast í þessum málum þegar þetta var og þegar þessi fyrirspurn var lögð fram.

Þess má líka geta að Félag ísl. landsbyggðarlækna hefur ályktað um þetta mál og skorað á yfirvöld heilbrigðismála að koma sem fyrst á úrbótum í sjúkraflutningum með flugvélum hér á landi. Ég vil nota tækifærið og spyrja hæstv. heilbrrh. einnig út í þessi atriði eins og hér hefur komið fram þó svo maður hafi heyrt í fréttum um ýmislegt sem ríkisstjórnin hefur ákveðið í framhaldi af þessu, og þá kannski alveg sérstaklega hvort hæstv. heilbrrh. þætti ekki skynsamlegt, því að ráðuneyti samgöngumála ætlar sér að styrkja eilítið innanlandsflug á þessum minni leiðum og bjóða út flug til þessara staða, að færa þetta útboð allt saman til samgrn. þannig að þetta væri boðið út sem einn pakki, sjúkraflugið líka. Ég er ekki að blanda mér inn í það þó ég sé sammála því að miðstöð sjúkraflugs verði á Akureyri. En það er líka spurning hvort þetta yrði boðið þannig út á vegum heilbrrn. að notaðar verði sérútbúnar vélar eða þær vélar sem líka annast farþegaflug. Fyrirspurnin sem er á þessu þskj. sem þarna var lögð fram er um þessi tvö atriði, þ.e. annars vegar um undirbúning á útboði á sjúkraflugi og um það hins vegar hvort hægt væri að standa að því að gera þetta sem heildarútboð sjúkraflugs og þess farþegaflugs sem boðað hefur verið að eigi að vera.