Framtíð sjúkraflugs

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 14:36:03 (7440)

2000-05-10 14:36:03# 125. lþ. 114.18 fundur 515. mál: #A framtíð sjúkraflugs# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[14:36]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið áður á Alþingi lét ég að gera mjög ítarlega úttekt á sjúkraflugi á landinu öllu saman. Þegar skýrslan lá fyrir var hún send til umsagnar mjög margra. Það var samdóma álit þeirra sem sendu inn umsagnir að þeim þætti rétt að miðstöðin væri á Akureyri, en jafnframt að áfram væri sjúkraflugvél í Vestmannaeyjum og á Ísafirði.

Í beinu framhaldi af því er umsagnir lágu fyrir var sú ákvörðun tekin í ríkisstjórn að útboð færi fram og að samgrn. og heilbrrn. ynnu saman varðandi það útboð. Ríkiskaup er sá aðili sem aðstoðar við útboðið. Að þessu útboði kemur líka Flugmálastjórn og Tryggingastofnun og það er auðvitað ýmislegt tengt þessum flugmálum sem kom einmitt fram hjá fyrirspyrjanda, þ.e. að þetta er samtvinnað samgöngumálunum þannig að það er mjög mikilvægt að samgrn. og heilbrn. vinni vel saman að þessu máli.

En til upprifjunar þá eru ekki nema tvö ár síðan sjúkraflugið var flutt yfir til heilbrrn. frá samgrn. Á sínum tíma þótti það rétt og það var gert en auðvitað geta menn velt því fyrir sér hvort þetta eigi að vera á einni hendi eður ei. Aðalatriðið er að við náum góðri niðurstöðu þannig að öryggi bæði í almennum samgöngum og sjúkraflugi sé fullnægt.