Forvarnir gegn krabbameinssjúkdómum

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 14:41:55 (7443)

2000-05-10 14:41:55# 125. lþ. 114.19 fundur 607. mál: #A forvarnir gegn krabbameinssjúkdómum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[14:41]

Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Á nefndu þskj. hef ég lagt fram fyrirspurn í tveimur liðum til hæstv. heilbr.- og trmrh. um forvarnir gegn krabbameinssjúkdómum. Mér sýnist rétt að meta það mikils að um áratugi hefur verið haldið úti samfelldu starfi að krabbameinsleit og er sérstaklega virðingarverð framganga og framkvæmd Krabbameinsfélagsins en einnig framganga nokkurra stofnana í heilbrigðisþjónustunni.

Þegar svona er komið, starfið hefur staðið nokkuð lengi, tel ég ástæðu til að meta áhrif og árangur, horfa til framtíðar og hefja undirbúning að stefnumótun og ákvörðunum um víðtækara forvarnastarf og víðtækari leit að einkennum krabbameinssjúkdóma. Því hef ég lagt fram fyrirspurnina í þeim tveim liðum sem hér segir, með leyfi forseta:

1. Hvert er mat ráðherra á árangri af því forvarnastarfi gegn krabbameini sem hér hefur verið unnið, þar með talið á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins; hefur ráðuneytið eða landlæknisembættið metið áhrif þessa starfs á heilbrigðisþjónustuna?

2. Hefur ráðherra fyrirætlanir um auknar forvarnir gegn krabbameini, t.d. með víðtækari krabbameinsleit? Ef svo er, hverjar eru þær, hvenær komast þær í framkvæmd og hvernig verða þær skipulagðar? Ef svo er ekki, mun ráðherra þá styðja hugmyndir annarra aðila um forvarnir, svo sem Krabbameinsfélagsins, einstakra lækna eða annarra?