Forvarnir gegn krabbameinssjúkdómum

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 14:43:20 (7444)

2000-05-10 14:43:20# 125. lþ. 114.19 fundur 607. mál: #A forvarnir gegn krabbameinssjúkdómum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[14:43]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessar tvær ágætu fyrirspurnir. Í stuttu máli er því til að svara að ráðuneytið og landlæknisembættið er mjög ánægt með árangurinn af forvarnastarfi sem hefur nú verið aðallega á höndum Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins. Leitarstöðin hefur unnið samkvæmt samningi við heilbrrn. Við endurnýjuðum samninginn ekki alls fyrir löngu og jukum þá mjög fjármagnið. Á ársgrundvelli er fjármagnið 165 millj. kr. sem leitarstöðin fær og hefur hækkað um 51% frá árinu 1998.

Þá sér Krabbameinsfélagið líka um skráningu krabbameins á Íslandi samkvæmt samningnum við ráðuneytið og fær til þess 14,4 millj. kr. á yfirstandandi ári.

Meginþungi starfsemi leitarstöðvarinnar hefur beinst að leit að leguhálskrabbameini og að lækka dánartíðni þeirra sem það krabbamein hrjáir. Um er að ræða ótvíræðan árangur þar sem dánartíðni leghálskrabbameins hefur lækkað í 75%. Hefur verið áætlað að um 150 fleiri konur hefðu látist af völdum sjúkdómsins hefði dánartíðni verið í dag sú hin sama og hún var við opnun leitarstöðvarinnar. Þessi árangur er tvímælalaust með því besta sem þekkist í veröldinni.

Ljóst má vera að þessi árangur hefur haft bein og óbein áhrif á heilbrigðisþjónustuna, en nánara mat á frekari áhrifum er mjög erfitt eins og með aðra þætti þeirrar þjónustu.

Annar megináhersluþáttur í starfi krabbameinsleitar hefur verið leit að brjóstakrabbameini, en eins og kunnugt er er brjóstakrabbamein langalgengasta krabbamein meðal íslenskra kvenna og næstalgengasta dánarorsök krabbameins meðal kvenna. Talið er óyggjandi að lífshorfur kvenna hafi batnað og minna má á að hér á landi deyja um 40 konur á hverju ári úr brjóstakrabbameini og þar af eru um tíu konur undir fimmtugt. Núna er talið að sjö til átta konur af hverjum tíu sem greinast með brjóstakrabbamein muni lifa í fimm ár eða lengur.

Enn má minna á fleiri þætti í forvarnastarfi gegn krabbameini. Hér vil ég nefna umfangsmikið starf tóbaksvarnanefndar sem beitir sér ekki að krabbameinsleit heldur almennri fræðslu um skaðsemi tóbaks, sérstaklega meðal unglinga og hefur starfsemi nefndarinnar, m.a. í samstarfi við Krabbameinsfélagið, beint kröftum sínum að fræðslustarfsemi í skólum. Það er gaman að geta þess að þróunin er heldur í rétta átt nú því að reykingar eru á svolitlu undanhaldi.

Hv. fyrirspyrjandi spyr einnig um forvarnir framtíðarinnar og hvort við ætlum að auka við. Því er til að svara að sérstaklega er verið að skoða það að fara í krabbameinsleit á krabbameini í blöðruhálskirtli. Þá er verið að tala um hópleit. En við erum ekki komin svo langt að hefja hana. Aftur á móti er lengra komið varðandi krabbameinsleit í ristli. Hópur á vegum landlæknisembættisins vinnur nú að tillögum um framkvæmd þessa máls, þ.e. krabbameins í ristli og er búist við að tillögur hans liggi fyrir síðar á árinu og þetta komist þar með mjög fljótlega í framkvæmd. Sama máli tengist áætlun um að koma upp skráningu á sepum í ristli, en þeir eru þekktir sem hugsanlegur undanfari krabbameins í ristli.

Þá má einnig geta þátttöku landlæknisembættisins í rannsóknarverkefni um ákveðna veirutegund, svokallaðan HPV-vírus, en hann getur valdið krabbameini í leghálsi. Verið er að þróa bóluefni gegn honum og fylgist bæði ráðuneytið og landlæknisembættið með þessu starfi og tekur þátt í því að hluta.