Vinnureglur Tryggingastofnunar um bifreiðar fatlaðra

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 14:54:32 (7448)

2000-05-10 14:54:32# 125. lþ. 114.20 fundur 633. mál: #A vinnureglur Tryggingastofnunar um bifreiðar fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[14:54]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. spyr um vinnureglur Tryggingastofnunarinnar varðandi sérútbúnað og breytingar á bifreiðum fyrir fatlaða.

Eins og þingmanninum er kunnugt eru vinnureglur Tryggingastofnunar á verksviði hennar og staðfestar af tryggingaráði. Ráðherra hefur því ekki formlegt forræði yfir vinnureglum en getur auðvitað óskað eftir að einstakir þættir verði teknir til skoðunar.

Að því er varðar fyrstu spurningu hv. þm. er því til að svara að að undanförnu hefur starfshópur innan Tryggingastofnunar ríkisins einmitt verið með tilhögun bifreiðamála á vegum stofnunarinnar í endurskoðun. Tillögur hópsins ná yfir breytingar á allri tilhögun þessara mála þannig að hugmyndirnar ganga mun lengra en einungis til vinnureglna. Því gæti komið til kasta ráðuneytisins að taka afstöðu til þessara tillagna þar sem hugmyndirnar gætu kallað á reglugerðir og jafnvel lagabreytingar.

Hv. þm. spyr í öðru lagi hvenær reglur um greiðslu kostnaðar í þessu sambandi hafi síðast verið endurskoðaðar og upphæðum breytt. Reglum um greiðslu kostnaðar í þessu sambandi var síðast breytt 15. október á síðasta ári. Þá var m.a. ákveðið af tryggingaráði að hækka greiðsluþátttöku um 70--100% í bílsætum, púðum með sérstökum eiginleikum, svo og í sjálfvirkum hurðaopnurum.

Í þriðja lagi spyr hv. þm. hvort ráðherra telji koma til greina að sérstök nefnd eða óháður aðili meti þörf fyrir sérútbúnað eða breytingar í einstökum tilvikum og fylgist með sérstökum lausnum og hvernig þær nýtast. Ég tel að af hálfu Tryggingastofnunar og hjálpartækjamiðstöðvarinnar sé vel séð fyrir mati á þörf fyrir sérútbúnað og breytingar en eins og við vitum verður alltaf að skoða málefni hvers einstaklings í þeim efnum. Þá er nauðsynlegt að fylgst sé með tæknilegum lausnum á þessu sviði og hvernig þær nýtast.

Það þarf vissulega að tryggja hvort tveggja, þ.e. úttekt á hjálpartækjum í bifreiðum og eftirlit með þeim. Í því skyni er í samstarfi við dómsmrn. unnið að því að finna hvernig slíkri úttekt verði háttað. Fyrsta skrefið í þessa átt verður væntanlega stigið í þessari viku við undirritun samnings Tryggingastofnunar við Grensásdeild Landspítala um mat á ökuhæfni hreyfihamlaðra. Samstarfshópur hjálpartækjamiðstöðvar Tryggingastofnunar, Grensásdeildar og Reykjalundar ásamt ökukennara og bílaverkfræðingi hefur unnið frá því í vor að uppbyggingu ökuhæfnismats með tilheyrandi matsgögnum.

Ökuhæfnismat er oft nauðsynleg forsenda fyrir mati á hvort viðkomandi geti ekið, á því hvaða bílahjálpartæki eru nauðsynleg og hvort þörf sé á sérstakri ökuþjálfun. Sé talið að einstaklingur hafi þörf fyrir sérstaka ökuþjálfun verður hún veitt í þeirri bifreið sem hann kemur til með að aka og þá með þeim hjálpartækjum sem mat hefur leitt í ljós að nauðsynleg eru.

Samkvæmt samningnum verður verkaskipting á milli Grensásdeildar og Reykjalundar þannig að Grensásdeild tekur að sér ökuhæfnismat hreyfihamlaðra og verður með sérstaka aðstöðu til þess, en Reykjalundur hefur annast mat á ökuhæfni þeirra sem eiga við andlega skerðingu að búa. Með þessu samstarfi telur Tryggingastofnun tryggt að hreyfihamlaðir fái þær bifreiðar sem þeim hentar best og þá aðstoð sem þeir þurfa.