Flutningur eldfimra efna um Hvalfjarðargöng

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 15:10:40 (7454)

2000-05-10 15:10:40# 125. lþ. 114.15 fundur 507. mál: #A flutningur eldfimra efna um Hvalfjarðargöng# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[15:10]

Fyrirspyrjandi (Guðjón Guðmundsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni fyrir góða ábendingu. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að lögreglustjóri hefði takmarkað þessa flutninga sem væru bannaðir frá ákveðnum tíma á föstudögum og fram á sunnudagskvöld. Mér finnst það reyndar ófullnægjandi og vil þá spyrja í leiðinni, hvernig er eftirliti með þessu banni háttað? Nú eru margir sem vilja halda því fram að þessu banni sé ekki fylgt eftir og væri fróðlegt að heyra hvernig eftirliti er háttað með því.

Ég vitnaði í ræðu minni í umfjöllun DV í mars um eldhættu í Hvalfjarðargöngum. Af því að hæstv. ráðherra ræðir um hlutafélagið Spöl, þá segir forsvarsmaður Spalar í þessu viðtali við DV, með leyfi forseta:

,,Áhættan sem verið er að reikna liggur svo til öll í stóru bílunum. Vegna þess hve nærri var farið um fjölda þeirra um göngin í upphafi hefur áhættan sáralítið breyst. Hún er enn innan þeirra marka um hvað er ásættanlegt miðað við þá erlendu staðla sem eru notaðir.``

Í þessari grein kemur jafnframt fram að í Noregi sé óhappatíðni heldur meiri á þjóðvegunum en í göngum yfirleitt. En tilvitnanir í erlenda staðla sannfæra mig ekki um ágæti þessara flutninga. Ég tel að það eigi að banna flutninga á bensíni og gasi um Hvalfjarðargöngin. Það skapar ekki vandræði vegna þess að aðrir kostir eru fyrir hendi varðandi þessa flutninga. Það er ágætur vegur fyrir Hvalfjörð með lítilli umferð og er upplagt að flytja t.d. gas landveginn.

Þá minni ég á að olíufélögin fluttu bensín sjóleiðina til Akraness áður en göngin komu og dreifðu því þaðan um allt Vesturland og jafnvel lengra. Olíufélögin eiga þessa aðstöðu á Akranesi og er engin vorkunn að nota hana eða þá að öðrum kosti að flytja bensín um landveg fyrir Hvalfjörð.

Herra forseti. Mér finnst flutningur á bensíni og gasi um göngin eins og rússnesk rúlletta. Eitt óhapp gæti valdið óbætanlegum skaða. Þess vegna tel ég að það eigi að banna þessa flutninga.