ILO-samþykkt um aðbúnað skipverja

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 15:15:30 (7456)

2000-05-10 15:15:30# 125. lþ. 114.16 fundur 512. mál: #A ILO-samþykkt um aðbúnað skipverja# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[15:15]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég hef lagt fsp. fyrir hæstv. samgrh. þar sem ég spyr hvenær búast megi við fullgildingu ríkisstjórnar Íslands á ILO-samþykktinni S.163 frá 1987, um aðbúnað skipverja, en samkvæmt samþykktinni skuldbinda aðildarríkin sig til að tryggja velferð sjómanna bæði á hafi úti og í höfn. Aðildarríkin skuldbinda sig til að tryggja nægilega góðar aðstæður í höfnum og að tryggja reglubundið eftirlit og endurnýjun hvað þetta varðar.

Þannig hagar til að um 900 erlend kaupskip koma til Íslands á hverju ári og flest þeirra hér í Faxaflóahafnir. Ríkin sem hafa fullgilt ILO-samþykktina, sem tók gildi 30. október 1990, eru 11. Svíþjóð fullgilti samþykktina 21. febrúar 1990, Finnland 30. júní 1993, Noregur í nóvember 1993, Danmörk árið 1993 og innan ESB hefur Spánn fullgilt samþykktina.

Þessi samþykkt, herra forseti, gengur út á að þessi ríki taka ákveðið gjald af skipakomum eða vörugjöldum sem síðan er notað til að byggja upp velferðarráð eða sérstök sjómannaheimili þar sem erlendir sjómenn eigi afdrep þegar þeir koma í þessar hafnir. Stefnt er að því að koma þessu við sem víðast því að við vitum að erlendir sjómenn á erlendum skipum, ég tala ekki um á skipum undir hentifánum, eru oft langtímum að heiman og nýta þá mjög þessa möguleika sem þeir eiga í sjómannastofum við hafnir þeirra landa sem þeir koma til. Ég tel mikla nauðsyn á að koma þessu upp í ljósi þess fjölda skipa sem hingað kemur og líka að við stöndum vel að vígi varðandi þá ILO-samþykkt sem hér er fjallað um. Því legg ég þessa fyrirspurn til hæstv. samgrh.